Tvíburafæðing

06.04.2009

Ef konur hafa fætt barn/börn áður er þá nokkuð sem mælir á móti því að fæða tvíbura á náttúrulegan hátt? Flestar eru teknar með keisara er það ekki? En ef maður vill bara fæða? Ætli séu svipaðar reglur annars staðar í heiminum í sambandi við þetta?

Með fyrirfram þökk.


Sæl og blessuð!

Þegar ákvörðun er tekin um hvort stefna eigi að tvíburafæðingu um leggöng eða hvort heppilegra sé að gera keisara skiptir miklu máli hvernig börnin liggja í móðurkviði. Að sjálfsögðu er einnig tekið tillit til fyrri sögu móður og óska foreldra.  Kona sem hefur fætt eðlilega áður á mjög góða möguleika á að fæða tvíbura á náttúrulegan hátt.

Ef tvíburi A (sá sem er neðar) er í höfuðstöðu er yfirleitt stefnt að fæðingu um leggöng, en annars keisara. Tvíburafæðing fer fram eins og fæðing einbura þar til eftir að fyrri tvíburinn (tvíburi A) fæðist. Síðan fæðist seinni tvíburinn (tvíburi B) og síðast fylgjurnar. Tvíburafæðingar ganga oftast vel en teljast þó til áhættufæðinga og því er meira eftirlit og meiri viðbúnaður en gengur og gerist. Sem dæmi um aukinn viðbúnað má nefna að þegar kemur að fæðingu eru yfirleitt 2 ljósmæður, fæðingalæknir og barnalæknir til staðar. Ljósmóðir fylgist vel með líðan móður og barna allan tíma og yfirleitt er fylgst stöðugt með hjartslætti barnanna alla fæðinguna. Þrátt fyrir aukið eftirlit og meiri viðbúnað er að sjálfsögðu er reynt að skapa jákvætt og rólegt andrúmsloft og óskir foreldra virtar. Konur hafa sömu möguleika til verkjastillingar og við fæðingu einbura nema að því leyti að ekki er hægt að bjóða upp á vatnsmeðferð (bað) þar sem ekki er möguleiki á að fylgjast stöðugt með hjartslætti barnanna þannig.  Á Landspítalanum er mælt með mænurótardeyfingu í tvíburafæðingu vegna þess að mögulega þarf að gera inngrip við fæðingu seinni tvíburans.

Ef þú átt von á tvíburum, þá skaltu ræða þetta við ljósmóðurina þína í mæðravernd, hún getur örugglega frætt þig enn betur um þetta.

 

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. apríl 2009.