Tvíburafæðing

21.09.2006

Hæ, hæ og takk fyrir góðan vef!

Ég er nú alltaf að bíða eftir tvíburaupplýsingum hér á síðunni ykkar, það vantar alveg.

Það sem ég er núna að spá í er að ég geng með tvíbura og er með tvær fylgjur. Hvernig er þetta í fæðingu, fæðist fyrst eitt barn og svo fylgja eða fæðast börnin fyrst og svo fylgjurnar. Hef aðeins verið að velta þessu fyrir mér.

Og annað svona í leiðinni ég á einn fyrirbura og eina sem ég gekk framyfir með, var að velta fyrir mér og er svolítið kvíðin fyrir er hvort að maður sé látin ganga framyfir með tvíbura, er frekar hrædd við það.

Með fyrirfram þökk, Ronja.


Sæl og blessuð og til hamingju með það að eiga von á tvíburum.

Í fæðingu tvíbura þá fæðist fyrst A barnið og svo B barnið - eins og börnin eru oft aðgreind, bara eftir því hvort barnið kemur á undan. Síðan fæðist fylgjan eða fylgjurnar.

Hvort tvíburamæður gangi með börnin fram yfir tímann þá er það frekar
ólíklegt. Flestir tvíburar fæðast fyrir 40 vikna meðgöngu og oft er fæðing tvíbura framkölluð milli 39. og 40. viku.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. september 2006.