Spurt og svarað

21. september 2006

Útvíkkun hjá íþróttakonum

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég hef heyrt nokkur dæmi þar sem konum sem spila knattspyrnu gengur erfiðlega að fá útvíkkun með hríðunum. Geta verið tengsl þarna á milli? Einhvers staðar heyrði ég að þær hafa svo sterka vöðva þarna niðri að það slaknar ekki á þeim milli hríða og oftast þurfa þær mænurótardeyfingu til að slaka á. Er eitthvert vit í þessu?

Kveðja, áhyggjufull íþróttakona.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Því hefur verið haldið fram að sterkir grindarbotnsvöðvar geti tafið fyrir fæðingu en það eru engin vísindi á bak við það. Mér finnst það hins vegar ekki mjög rökrétt. Persónulega þá trúi ég því ekki að mænurótardeyfing flýti fyrir útvíkkun í þessu sambandi en ég veit að einhverjir kunna að vera ósammála mér. Ég hef hins vegar í höndunum niðurstöður rannsóknar frá Noregi sem sýnir fram á það að styrking grindarbotnsvöðva á meðgöngu geti frekar flýtt fyrir fæðingu því konurnar í rannsókninni sem þjálfuðu grindarbotnsvöðvana á meðgöngu voru síður í hættu á að vera lengur á rembingsstiginu en ekki var verið að rannsaka útvíkkunartímabilið. Mín reynsla er sú að konur sem eru í góðu formi komast oft léttar í gegn um fæðingu þannig að það ætti að vinna með þér. Það er mikilvægt að geta verið á hreyfingu og breytt um stellingar, bæði á útvíkkunartímabilinu og rembingstímabilinu.

Held að þú ættir ekkert að vera hafa áhyggjur af þessu. Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.