Spurt og svarað

23. mars 2013

Valkeisari?

Hæ hæ
Ég er að velta því fyrir mér hvort maður hafi alltaf rétt á því að velja keisara eftir t.d erfiða fæðingu? Ég átti erfiða fæðingu árið 2011, aðdragandi fæðingarinnar og fæðingin sjálf gekk ágætlega en aðdragandinn var langur og eftir 1 og hálfan tíma í rembing var ég klippt og barnið kom í næstu tveimur hríðum. En strax eftir fæðinguna veiktist ég, blés öll upp og var flutt með hraði með sjúkrabíl úr Keflavík í bæinn, þar greindist ég með pneumomediastinum sem eru víst einhverjar blöðrur sem springa í lungunum. Með þessu fylgdu miklir verkir í brjósti og þurfti ég súrefni o.fl., ég gat ekki verið með barnið og eyddi nóttunni á gjörgæslu. En verst í þessu finnst mér að fá engar upplýsingar aðrar en þær að enginn vissi neitt um þetta, enginn gat sagt af hverju þetta gerðist, og enginn getur sagt mér hvort þetta geti komið fyrir aftur, eina sem mér var sagt í rauninni var að þetta hafi aldrei áður komið fyrir í fæðingu á Íslandi og að næst yrði ég að eiga á landspítalanum þar sem skurðstofa væri við höndina. Svo nú er ég ólétt aftur en fer ekki í mæðraskoðun fyrr en ég verð komin 13 vikur 4 apríl, en mig langar svo að vita hvort ég hafi rétt á keisara eftir þetta?Sæl!
Sem betur fer ganga flestar fæðingar vel og móðir og barn komast heil heilsu frá fæðingunni. Í einstaka tilfellum koma upp vandamál sem þarfnast sérhæfðrar læknismeðferðar. Í þínu tilfelli kom upp mjög sjaldgæft vandamál og greinilegt að ekki er vitað hver orsökin fyrir því er. Við heimildaleit fann ég ekki mikið til að hjálpa þér. Ég mæli því eindregið með að þú fáir viðtal hjá fæðingarlækni á Göngudeild mæðraverndar á Landspítalanum. Þar er hægt að fara yfir fæðinguna þína og meta kosti þess og galla að fara í keisara í næstu fæðingu eða reyna fæðingu. Í tilfellum eins og þínu er alltaf tekið tillit til óska móður.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. mars 2013
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.