Vangaveltur um vatnsfæðingar

12.10.2006

Halló!

Ég var að velta fyrir mér hvort það væru einhverjar ástæður fyrir því að konur mega ekki eiga í vatni þ.e.a.s. ef allt er eðlilegt, engin vandkvæði. Er einhver greinarmunur gerður á því hvort þetta sé fyrsta barn eða ekki? Mega allar heilbrigðar konur eiga í vatni? Er það þá gert í staðinn fyrir lyfjanotkun eða má eiga í vatni og fá deyfingu? Má bara vera þá einn stuðningsaðili viðstaddur vatnsfæðinguna eða mega vera tveir, t.d. faðir barnsins og móðir konunnar?

Takk.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar

Þar sem ég vinn á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) þá mun ég tala út frá þeim verklagsreglum sem þar gilda. Allar konur sem hafa átt áhættulausar meðgöngur, eru gengnar 37 vikur eða meira, hafa tært legvatn og eru áætluð með börn 4500 gr eða minni mega fæða í vatninu. Þær konur sem velja að fara í vatnið nota oft ekki aðrar verkjastillingar en þær sem hægt er að nota með baðinu sem eru nálastungur, nudd eða glaðloft. Ef konur hafa fengið Petidín geta þær ekki farið í baðið fyrr en 8 klukkutímum seinna. Baðið getur flýtt fyrir útvíkkunarferlinu og það sem heita vatnið í baðinu gerir er að hjálpa konunni til þess að takast á við hríðarnar, konunni líður mjög vel í vatninu og því er ekki verið að taka hana upp úr þegar kemur að rembingstímabilinu, því þá er komið að tímabili í fæðingunni sem erfitt er að færa konuna úr stað.  Reglulega er hjartsláttur barnsins hlustaður og ef einhver grunur leikur á að um breytingu á hjartslætti sé að ræða þá er konan beðin að koma upp úr og þá er fylgst betur með hjartslætti barnsins í sírita.  Konan sjálf stjórnar því hverjir eru í fæðingunni og hversu margir. Á HSS er nýbúið að taka baðherbergið í gegn og kominn stærri aðstaða og nýr og stærri pottur.  Þannig að það fer vel um aðstandendur líka. Konur eru velkomnar á fæðingadeild HSS hvaðan sem er á landinu.

Vonandi svarar þetta vangaveltum þínum.

Kveðja,

Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. október 2006.