Spurt og svarað

27. október 2006

Varðandi útvíkkun

Góðan dag!

Ég er frumbyrja, gengin um 38 vikur og er búin að vera með 2 í útvíkkun í 1 ½ sólarhring. Ég fæ smá svona samdráttarverki í kúluna af og til og einnig í mjóbakið. Verkirnir eru mjög óreglulegir og standa stutt yfir. Getur útvíkkun gengið til baka og hvað getur stig 1 (útvíkkunartímabilið) staðið lengi yfir hjá frumbyrjum?


Sælar og takk fyrir að leita til okkar.

Þegar konur eru komnar með einhverja útvíkkun og þær eru að halda áfram með einhverja verki, gengur útvíkkun sjaldnast til baka.  Þú virðist hins vegar vera á það sem við köllum á rólega fasa fæðingarinnar eða (latent fasa). Það tímabil fæðingarinnar getur staðið yfir í nokkra daga jafnvel vikur þar sem sóttin er ekki orðin aktív. Til þess að vera komin í aktívan gang þá eru hríðarnar á 2-4 mínútna fresti, eða orðnar reglulegar.  Hver hríð stendur yfir í 45-60 sekúndur og þær eru allar orðnar jafn sterkar.  Þá eru konur komnar í fæðingu. Hins vegar getur þetta tímabil sem þú ert á verið þreytandi fyrir konuna, hún er komin með væntingar um að fæðing sé að hefjast og verður svekkt ef eitthvað fer ekki að gerast.  Mjög gott er að vera þolinmóð og hvíla sig eins og hægt er, reyna að hugsa um eitthvað annað. Gott er að hugsa um að þetta tímabil sem nauðsynlegan undirbúning fæðingarinnar.

Gangi þér sem allra best,

Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. október 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.