Varðandi útvíkkun

27.10.2006

Góðan dag!

Ég er frumbyrja, gengin um 38 vikur og er búin að vera með 2 í útvíkkun í 1 ½ sólarhring. Ég fæ smá svona samdráttarverki í kúluna af og til og einnig í mjóbakið. Verkirnir eru mjög óreglulegir og standa stutt yfir. Getur útvíkkun gengið til baka og hvað getur stig 1 (útvíkkunartímabilið) staðið lengi yfir hjá frumbyrjum?


Sælar og takk fyrir að leita til okkar.

Þegar konur eru komnar með einhverja útvíkkun og þær eru að halda áfram með einhverja verki, gengur útvíkkun sjaldnast til baka.  Þú virðist hins vegar vera á það sem við köllum á rólega fasa fæðingarinnar eða (latent fasa). Það tímabil fæðingarinnar getur staðið yfir í nokkra daga jafnvel vikur þar sem sóttin er ekki orðin aktív. Til þess að vera komin í aktívan gang þá eru hríðarnar á 2-4 mínútna fresti, eða orðnar reglulegar.  Hver hríð stendur yfir í 45-60 sekúndur og þær eru allar orðnar jafn sterkar.  Þá eru konur komnar í fæðingu. Hins vegar getur þetta tímabil sem þú ert á verið þreytandi fyrir konuna, hún er komin með væntingar um að fæðing sé að hefjast og verður svekkt ef eitthvað fer ekki að gerast.  Mjög gott er að vera þolinmóð og hvíla sig eins og hægt er, reyna að hugsa um eitthvað annað. Gott er að hugsa um að þetta tímabil sem nauðsynlegan undirbúning fæðingarinnar.

Gangi þér sem allra best,

Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. október 2006.