Spurt og svarað

11. nóvember 2011

Vatnsfæðing, vefjagigt o.fl.

Hæ, hæ!

Ég er 19 ára og er að ganga með mitt fyrsta barn. Er á viku 37 og var í foreldrafræðslu þar sem kynntar voru deyfingar og möguleikar í fæðingu. Ég og kærastinn minn vorum mjög heilluð af vatnsfæðingum, líka að hann geti verið með mér ofan í baðinu. Ég greindist með vefjagigt þegar ég var u.þ.b. 15 ára og á það til að fá mikla verki í mjóbakið. Ég hef reyndar ekki fundið mikið fyrir neinum verkjum í mjóbakinu á meðgöngunni en á það til að finna til ef ég sit mikið í bíl. Er mér óhætt að fæða í baði og fá aðeins glaðloft ef ég er með vefjagigt i mjóbakinu eða þarf ég mænurótadeyfingu? Ég er óvirkur áfengis og vímuefna fíkill og því vil ég ekki morfínskyld deyfilyf. Er bað á Landspítalanum? Hef heyrt það sé í Hreiðrinu en ég veit ekki mikið um það því ég er í mæðravernd í Grindavík og bý þar. Ég er mjög heilluð af baðinu í Keflavík og sængurleguni en það eru allir að segja að ég eigi frekar að eiga á Landspítalanum því það er ekki möguleiki á mænurótardeyfingu í Keflavík. Er öruggara fyrir mig að eiga á Landspítalanum því ég gæti þurft mænurótadeyfingu útaf bakveiki?

Takk fyrir að lesa og takk fyrir góðan vef :)


Sæl og blessuð!

 Ef þú ert hraust fyrir utan vefjagigtina þá hefur þú val um að fæða í Keflavík eða á Landspítalanum. Ég ráðlegg þér að ræða þetta við ljósmóðurina þína næst þegar þú ferð í mæðravernd. Það er gaman að heyra hvað þú ert jákvæð og opin fyrir náttúrlegum leiðum í fæðingunni. Fyrir þig gæti baðið verið mjög góður kostur, bæði út af þinni sögu um bakvandamál og vímuefnamisnotkun. Þú getur líka notað glaðloftið. Eins og þú hefur heyrt á námskeiðinu þá er ýmislegt fleira í boði s.s. nálastungur, vatnsbólur, heitir bakstrar og fleira. Það er sama hvaða fæðingarstað þú velur, þú átt alltaf kost á að prófa baðið. Á fæðingardeild Landspítalans eru 3 stofur með baði og eins og þú veist þá eru böð í Hreiðrinu og í Keflavík. Mér finnst ekki líklegra að þú þurfir mænurótardeyfingu þó að þú hafir vefjagigt. Vatnsfæðing gæti líka verið góður kostur fyrir þig og ekkert sem mælir á móti því að þú fæðir ofan í vatninu.

Á vef Landspítalans er myndband sem kynnir fæðingarþjónustu spítalans og fleira sem viðkemur fæðingunni.

Mig langar einnig að benda þér á meira fræðsluefni hér á vefnum sem gæti nýst þér:

- Bæklingur um Verkjameðferð án lyfja

- Bæklingur um Verkjameðferð með lyfjum

- Bæklingur um Vatnsböð í fæðingum og vatnsfæðingar

- Bæklingur um Val á fæðingarstað

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. nóvember 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.