Vatnsfæðing, vefjagigt o.fl.

11.11.2011

Hæ, hæ!

Ég er 19 ára og er að ganga með mitt fyrsta barn. Er á viku 37 og var í foreldrafræðslu þar sem kynntar voru deyfingar og möguleikar í fæðingu. Ég og kærastinn minn vorum mjög heilluð af vatnsfæðingum, líka að hann geti verið með mér ofan í baðinu. Ég greindist með vefjagigt þegar ég var u.þ.b. 15 ára og á það til að fá mikla verki í mjóbakið. Ég hef reyndar ekki fundið mikið fyrir neinum verkjum í mjóbakinu á meðgöngunni en á það til að finna til ef ég sit mikið í bíl. Er mér óhætt að fæða í baði og fá aðeins glaðloft ef ég er með vefjagigt i mjóbakinu eða þarf ég mænurótadeyfingu? Ég er óvirkur áfengis og vímuefna fíkill og því vil ég ekki morfínskyld deyfilyf. Er bað á Landspítalanum? Hef heyrt það sé í Hreiðrinu en ég veit ekki mikið um það því ég er í mæðravernd í Grindavík og bý þar. Ég er mjög heilluð af baðinu í Keflavík og sængurleguni en það eru allir að segja að ég eigi frekar að eiga á Landspítalanum því það er ekki möguleiki á mænurótardeyfingu í Keflavík. Er öruggara fyrir mig að eiga á Landspítalanum því ég gæti þurft mænurótadeyfingu útaf bakveiki?

Takk fyrir að lesa og takk fyrir góðan vef :)


Sæl og blessuð!

 Ef þú ert hraust fyrir utan vefjagigtina þá hefur þú val um að fæða í Keflavík eða á Landspítalanum. Ég ráðlegg þér að ræða þetta við ljósmóðurina þína næst þegar þú ferð í mæðravernd. Það er gaman að heyra hvað þú ert jákvæð og opin fyrir náttúrlegum leiðum í fæðingunni. Fyrir þig gæti baðið verið mjög góður kostur, bæði út af þinni sögu um bakvandamál og vímuefnamisnotkun. Þú getur líka notað glaðloftið. Eins og þú hefur heyrt á námskeiðinu þá er ýmislegt fleira í boði s.s. nálastungur, vatnsbólur, heitir bakstrar og fleira. Það er sama hvaða fæðingarstað þú velur, þú átt alltaf kost á að prófa baðið. Á fæðingardeild Landspítalans eru 3 stofur með baði og eins og þú veist þá eru böð í Hreiðrinu og í Keflavík. Mér finnst ekki líklegra að þú þurfir mænurótardeyfingu þó að þú hafir vefjagigt. Vatnsfæðing gæti líka verið góður kostur fyrir þig og ekkert sem mælir á móti því að þú fæðir ofan í vatninu.

Á vef Landspítalans er myndband sem kynnir fæðingarþjónustu spítalans og fleira sem viðkemur fæðingunni.

Mig langar einnig að benda þér á meira fræðsluefni hér á vefnum sem gæti nýst þér:

- Bæklingur um Verkjameðferð án lyfja

- Bæklingur um Verkjameðferð með lyfjum

- Bæklingur um Vatnsböð í fæðingum og vatnsfæðingar

- Bæklingur um Val á fæðingarstað

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. nóvember 2011.