Spurt og svarað

09. desember 2006

Vatnsfæðingar á LSH

Sælar og kærar þakkir fyrir góðan vef með áreiðanlegum upplýsingum.

Ég er mikið að velta fyrir mér möguleikanum á því að eiga í vatni og hef lesið þær fyrirspurnir sem hér eru á síðunni og svörin við þeim sem hafa hjálpað mér mikið. Eitt er þó sem ég enn ekki er alveg með á hreinu og það er í sambandi við vatnsfæðingar á Landspítalanum. Nú er bara talað um að ekki sé hefð fyrir því að konur eigi í vatni þar og einnig er nefnt að það sé ekki yfirlýst stefna spítalans að leyfa vatnsfæðingar. Hins vegar er það líka nefnt í svari við einni fyrirspurn hér á síðunni að það standi hvergi skrifað að það sé bannað heldur! Því væri gott að fá svar við því hreint og beint, hvort hægt/leyfilegt sé að neita konu um að klára fæðinguna í vatninu ef hún á annað borð er í baðinu þegar að því kemur? Því eftir því sem ég best veit, hafa verklagsreglur ekki lagalegt gildi í þessum skilningi.

Einhverjar sögur hef ég annars heyrt af báðum hliðum, að sumar ljósmæður á spítalanum hafi ekkert á móti þessu, en aðrar hafi hreinlega kippt tappanum úr baðinu ef konan ekki vill uppúr.

Ástæðan fyrir því að ég er að spyrja að þessu er sú að ég bý í Reykjavík og hæglegast væri fyrir mig að eiga á Landspítalanum í stað þess að keyra á Selfoss eða til Keflavíkur, ef mig langar að eiga möguleikann á því að eiga í vatni og þá væri leiðinlegt að þurfa að treysta á heppnina, með hvaða ljósmæður eru á vakt, þegar ég fer af stað.

Með von um skýr svör og þökk fyrir góðan vef.Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það hefur ekki fengist samþykki fyrir því að leyfa konum að fæða í vatni á Landspítalanum en það stendur heldur hvergi að það sé bannað, eins og þú hefur áður lesið.  Það er hins vegar verið að vinna að nýjum verklagsreglum varðandi notkun vatns í fæðingu.  Það er ekki vitað hvenær þeirri vinnu verður lokið né heldur hvort þær tillögur sem settar verða fram verða samþykktar og hvað það tekur þá langan tíma.  Ég hvet þig því til að athuga með hver staðan er á Landspítalanum um það leyti sem þú átt að fara að fæða, því það gæti hafa orðið einhver breyting á miðað við hvað leyft er í dag. Hins vegar langar mig að segja þér að það hafa nokkrar konur átt í vatni á síðustu mánuðum á Landspítalanum sökum þess að þær komust ekki upp úr áður en barnið fæddist.

Vona að þetta svar hjálpi þér að einhverju leyti !

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. desember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.