Þarf að klippa ef barnið er stórt?

10.08.2007

Fyrsta barnið mitt var mjög stórt og með stórt höfuð en samt rifnaði ég ekkert eða nánast ekkert (1 spor) ég er samt svo hrædd um að næsta ljósa gæti tekið upp skærin og klippt því að henni finnist barnið vera það stórt. Þarf þess? Eru ekki miklar líkur á því að ég sé „jafn góð“ og síðast? Þetta er mesta stressið fyrir næstu fæðingu. Ég er nefnilega ekki í skoðun hjá þeim sem ég fæði hjá og þarf að keyra um stund til að komast á fæðingastað og hef því ekkert samband við þær ljósur sem munu taka á móti barninu.

Takk fyrir.


Sæl og blessuð!

Það hljómar nú eins og fæðingin þín hafi bara gengið vel og að þú hafir farið nokkuð létt með að fæða stórt barn. Það er ekki algengt að ljósmæður klippi spöngina og sérstaklega ekki hjá konu sem hefur fætt stórt barn án þess að rifna. Það er líklegt að þú verðir „jafn góð“ eða „betri“ en síðast. Mér finnst afar ólíklegt að það þurfi að grípa til þess að klippa spöngina þína en þú ættir að ræða þetta við ljósmóðurina sem verður með þér í fæðingunni þegar þú hittir hana. 

Vona að þú hafir ekki meiri áhyggjur af þessu. Gangi þér vel.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
10. ágúst 2007.