Spurt og svarað

07. mars 2008

Þegar mænurótardeyfing virkar ekki

Hæ, hæ frábæru konur og takk fyrir meiriháttar vef!

Þannig er að ég á átta mánaða gamlan son og er komin átta vikur á leið með barn númer tvö. Fæðingin gekk ekki allt of vel síðast og eftir tveggja sólarhringa sótt var ég svo örmagna að ég bað um mænurótardeyfingu (komin með 3-4 í útvíkkun). Svæfingarlæknirinn átti erfitt með að finna réttan stað og stakk mig hvað eftir annað og svo loks taldi hún sig hafa fundið þetta og dældi í mig deyfingunni.  Ég fann aldrei neinn mun, þ.e.a.s. deyfingin virkaði ekki.  Ekki bætti úr skák að ljósmóðirin trúði mér ekki þegar ég sagði að þetta væri ekki að virka og dældi bara í mig meiru og meiru en aldrei fann ég neinn mun.  

Er möguleiki að konur geti verið ónæmar fyrir þessu efni eða er líklegra að læknirinn hafi bara ekki hitt á réttan stað?  Ég bið ykkur að svara mér því nú er ég ekki komin nema átta vikur á leið en græt á hverjum degi við tilhugsunina að þurfa að upplifa aðra fæðingu eins og síðustu!


Sæl og blessuð!

Mér finnst líklegra að deyfingin hafi ekki verið lögð á réttan hátt. Þú getur nú reyndar huggað þig við það að önnur fæðing gengur yfirleitt miklu betur og margar konur sem halda að þær komist ekki í gegn um fæðingu án deyfingar fara í gegn um fæðinguna án deyfingar. Ef þú ert harðákveðin í því að fá deyfingu í næstu fæðingu skaltu taka það skýrt fram að það hafi verið erfitt að leggja hjá þér deyfingu í síðustu fæðingu og að hún hafi ekki virkað sem skyldi.

Ef þú upplifir aftur að þér finnist ekki vera hlustað á þig þá verður þú bara að vera mjög ákveðin!

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. mars 2008.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.