Þröngur nárabogi

03.05.2006

Sælar ljósur og takk fyrir frábæran og fróðlegan vef!

Ég eignaðist dóttur mína fyrir 3 vikum og gekk allt bara mjög vel í fæðingunni. Í fæðingunni var ég skoðuð af kvensjúkdómalækni vegna krapps náraboga og mig langar að spyrja hvað þýðir það að vera með krappan náraboga? Læknirinn sagði að hugsanlega myndi fæðingin enda í keisara en sem betur fer gekk þetta allt eðlilega fyrir sig, líklegast vegna þess að stelpan mín var frekar lítil, tæp 11 merkur.

Hefur þetta áhrif á næstu fæðingar(ef einhverjar verða)? Ég hreinlega hafði ekki rænu á að spyrja um
þetta í fæðingunni.

Bestu þakkir.


Sælar og takk fyrir að leita til okkar
 
Þröngur nárabogi getur verið merki um litla eða þrönga mjaðmagrind sem getur haft áhrif á framgang fæðingarinnar,  þ.e.a.s. að höfuð barnsins eigi erfiðara með að komast í gegn. Vissulega hefur stærð barnsins áhrif á gang fæðingarinnar og það að þitt barn var ekki mjög stórt hefur hjálpað til við að barnið hafi farið þessa leið.  En hins vegar þegar eitt barn er búið að ryðja þessa leið þá býr maður að vissu leiti að því.  

Reyndin hefur verið sú að konur byrja í fæðingu og svo kemur það í ljós á framgangi fæðingarinnar hvort stærð barnsins og grind móðurinnar passi ekki saman. Þannig að þá er tekið á því í fæðingunni.

Vonandi svarar þetta spurningu þinni.

Kveðja,

Steina Þórey Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. maí 2006.