Spurt og svarað

22. júní 2010

Þverlega - komin 35 vikur

Sælar og takk fyrir góða síðu;)

Þannig er mál með vexti að ég geng með þriðja barn og er komin 35 vikur og barnið liggur þversum! Hverjar eru líkurnar á að barnið fari í höfuðstöðu? Eru meiri líkur en minni á að ég endi í keisara? Vil helst fæða þetta barn! Hef verið að reyna að lesa um þetta en finn bara bandarískar síður sem segir að ég verði að fara í keisara...

Með fyrirfram þökk um skjót svör;)


Sæl og blessuð!

Eðlileg „lega“ fósturs á þessum tíma meðgöngu kallast langlega sem þýðir að barnið er annað hvort í höfuðstöðu eða sitjandi stöðu. Barn sem ekki er í langlegu, er í þverlegu eða skálegu. Algengasta ástæða þverlegu og skálegu (oft kallað óstabíl lega) eru slakir legvöðvar og slakir kviðvöðvar og því er þetta algengara hjá konum sem hafa gengið með mjög mörg börn - en ástæðurnar geta vissulega verið fleiri, t.d. fyrirsæt fylgja og of mikið legvatn.

Ef fæðing hefst þegar barn liggur þvert eða á ská getur það leitt til þess að öxlin verður leiðandi fósturhluti og það gengur ekki upp. Ef legvatnið fer þegar barnið er í þessari stöðu er líka aukin hætta á naflastrengsframfalli. Ef legvatnið fer og barnið er í þverlegu eða skálegu þá er mikilvægt að leggjast fyrir eða fara á fjóra fætur með rassinn upp í loft og kalla á sjúkrabíl.

Þú ert væntanlega í nánu eftirliti hjá ljósmóður og lækni vegna þessarar stöðu og þau ættu að geta frætt þig um framhaldið. Stundum er reynd ytri vending við þessar aðstæður en oft fer barnið í þverlegu aftur þrátt fyrir að það takist að venda. Stundum er fæðing framkölluð í kjölfarið á ytri vendingu þar sem samdrættir í leginu halda barninu í réttri stöðu. Keisaraskurður er vissulega þrautarlending ef aðrar leiðir ganga ekki.

Nú eru 2 vikur síðan þú sendir þessa fyrirspurn og kannski er barnið komið í langlegu núna en það eru alla vega talsvert góðar líkur á því.

Vona að allt gangi vel hjá þér.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. júní 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.