Spurt og svarað

07. febrúar 2007

Barnsfarasótt

Hvað er barnsfarasótt og hversu algeng er hún. Ef konur fá barnsfarasótt eru þær þá lengi að jafna sig. Er talað um  barnsfarasótt í dag? Hvenær eru konur í mestri hættu á að fá barnsfarasótt?


Komdu sæl og takk fyrir að leita á ljósmóðir.is.

Barnsfarasótt er gamalt íslenskt orð um sjúkdómsástand konu eftir barnsburð. Í orðanna hljóðan hljómar alvarleiki þessa sjúkdómsástands, enda lífshættulegt ef kona fékk sýkingu eftir barnsburð fyrir tíma sýklalyfja. Um miðja 19. öld gat ungverski læknirinn Semmelweiss, sem starfaði í Vín, sér þess til að barnsfarasótt væri smitsjúkdómur og bærist hann með óhreinum höndum lækna og ljósmæðra. Tíðni mæðradauða vegna barnsfarasóttar var 10-35%. Tókst Semmelweiss að sýna fram á að með sótthreinsun og handþvotti heilbrigðisstarfsmanna mátti draga mjög úr barnsfarasótt enda var það ekki fyrr en upp úr miðri 20. öld sem fæðingar á sjúkrastofnunum töldust nokkuð öruggar. Í vanþróuðum löndum er talið að ein af hverjum 20 konum fái barnsfarasótt í kjölfar fæðingar, sem án meðhöndlunar getur leitt til alvarlegra heilsufarsvandamála (s.s. ófrjósemi) eða dauða. Í daglegu tali heilbrigðisstarfsmanna er það mín reynsla að orðið barnsfarasótt er ekki notuð að staðaldri ef kona fær sýkingu eftir barnsburð, nema ef vera skyldi að þessi sýking sé mjög alvarleg. Slíkur er máttur þessa orðs í hugum okkar, held ég. Barnsfarasótt (enska: puerperal sepsis eða childbed fever) er ekki alls staðar skilgreind á nákvæmlega sama hátt en það sem er sameiginlegt er að um er að ræða sýkingu sem konan fær á fyrstu 10-12 dögum eftir barnsburð. Samkvæmt alþjóðlegu tölfræðiskilgreiningu sjúkdóma (ICD-10) er kona með barnsfarasótt ef hún fær hita yfir 38 gráður sem stendur í einn sólarhring á fyrstu 10 dögum eftir barnsburð. Það er erfitt að segja til um hversu algeng barnsfarasótt er, því það er mjög misjafnt eftir heimsálfum. Ómeðhöndluð er barnsfarasótt mjög alvarlegt sjúkdómsástand og enn þann dag í dag er hún talin vera þriðja til fjórða algengasta orsök mæðradauða í heiminum. Ég reyndi að finna íslenskar tölur um algengi sýkingar eftir barnsburð, en fann þær ekki. Ef kona þarf að leggjast inn vegna alvarlegrar sýkingar í kjölfar barnsburðar í Bretlandi liggur hún að meðaltali inni á spítala í 2-3 daga (líklega til að fá sýklalyf í æð) og mér finnst líklegt að svipaða sögu sé að segja hér á landi. Eftir svona alvarlega sýkingu sem þarf meðhöndlun sýklalyfja í æð er mjög misjafnt hversu konur eru lengi að jafna sig, en það fer eftir mörgum þáttum eins og t.d. alvarleika sýkingar, heilbrigðisástandi konunnar fyrir sýkingu o.fl.

Ég veit að þetta er ekki tæmandi listi um barnsfarasótt, en gefur vonandi einhverja hugmynd um þennan alvarlega sjúkdóm.

Gangi þér vel.

Yfirfarið 19.6.2015

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.