Bað eftir keisara

28.11.2012
Hvenær má maður fara í bað eftir keisara?Sæl!
Þú ert væntanlega að tala um að fara í bað í baðkeri eftir keisara.
Við getum ekki mælt með að konur fari í bað í baðkari fyrr en úthreinsun eftir fæðinguna er lokið. Eftir fæðingu þarf legið að draga sig saman og loka sári í leginu þar sem fylgjan festist við legvegginn. Á meðan úthreinsun stendur er tiltölulega opið upp í legið, þar sem sárið er og aukin sýkingarhætta þar með. Til að minnka líkur á sýkingu er auðvitað mikilvægt að þvo baðkerið vel að áður en það er notað. Að auki þarf skurðsárið líka að vera vel gróið.
Hjá flestum konum er úthreinsun lokið 4 vikum eftir fæðingu hvort sem barnið fæddist um fæðingarveg eða með keisaraskurði.
Á meðan úthreinsun stendur mælum við með að konur fari í sturtu, það er óhætt að fara í sturtu daginn eftir keisaraskurð og beint eftir fæðingu um leggöng.Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. nóvember 2012