Eftirskoðun

22.04.2013
Sælar og takk fyrir frábæran vef.
Ég eignaðist strák fyrir tæpum 3 vikum og allt gekk vel. Vatnið fór og hann var kominn 18 tímum síðar, var réttur af með sogklukku og ég rifnaði aðeins. Var saumuð en bara nokkur spor. Mér blæddi mikið eftir fæðinguna og ég hef verið frekar slöpp síðan, finn að ég er blóðlítil. En það versta er hversu lystarlítil ég er, er nánast að pína ofaní mig matinn og það hefur auðvitað áhrif á brjóstamjólkina. Mig langar svo að vita hvort ekki sé boðið uppá eftirskoðun fyrir mæður. Heimaþjónusta ljósmæðra og Ungbarnaverndin eru æðisleg þjónusta en mig langar svo að vita hver það er sem sér um mömmuna.
Sæl
Til hamingju með drenginn þinn. Venjulega er með að konur fari í eftirskoðun um 6-8 vikum eftir fæðingu ef þær þurfa. Til dæmis ef þær óska eftir að fá hormónalykkjuna eða eitthvað er að trufla þær eftir fæðinguna t.d. rifa sem hefur ekki gróið vel. Ef eitthvað annað er í ólagi eins og þú lýsir getur þú leitað í heilsugæsluna og fengið tíma hjá heimilislækni.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. apríl 2013.