Spurt og svarað

25. ágúst 2008

Fyrir hverja er sængurlega í Hreiðri?

Komið þið sælar.

Mig langar að forvitnast hvernig kerfið á kvennadeild virkar. Mér finnst mjög heillandi að fá að vera á Hreiðrinu þegar þar að kemur. Eru það bara þær sem fæða þar sem fá að vera þar eða líka þær sem fæða án vandkvæða á fæðingargangi? Hvað er það þá sem gerir útslagið um að maður fái ekki að vera þar? Er það ekki rétt skilið hjá mér að á sængurkvennagangi séu margar í herbergi og að pabbinn fái ekki að gista? Það er það sem ég væri svo ósátt við, gæti trúað að maður þurfi aldrei meira á makanum sínum að halda en akkúrat þarna.


Sæl og blessuð!

Hreiðrið er bæði fæðingardeild og sængurlegudeild. Konur sem fæða á fæðingardeild geta farið á Hreiðrið eftir fæðinguna ef móður og barni heilsast vel. Ef upp koma vandamál hjá móður eða barni getur það krafist innlagnar á sængurkvennagang. Því miður eru aðstæður á sængurkvennagangi þannig að fleiri en ein kona eru á herbergi og yfirleitt geta feður ekki verið þar yfir nóttina en eru velkomnir yfir daginn.

Þú getur fræðst nánar um aðstæðurnar á kvennadeildinni í þessum bækling sem er hér.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. ágúst 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.