Fyrir hverja er sængurlega í Hreiðri?

25.08.2008

Komið þið sælar.

Mig langar að forvitnast hvernig kerfið á kvennadeild virkar. Mér finnst mjög heillandi að fá að vera á Hreiðrinu þegar þar að kemur. Eru það bara þær sem fæða þar sem fá að vera þar eða líka þær sem fæða án vandkvæða á fæðingargangi? Hvað er það þá sem gerir útslagið um að maður fái ekki að vera þar? Er það ekki rétt skilið hjá mér að á sængurkvennagangi séu margar í herbergi og að pabbinn fái ekki að gista? Það er það sem ég væri svo ósátt við, gæti trúað að maður þurfi aldrei meira á makanum sínum að halda en akkúrat þarna.


Sæl og blessuð!

Hreiðrið er bæði fæðingardeild og sængurlegudeild. Konur sem fæða á fæðingardeild geta farið á Hreiðrið eftir fæðinguna ef móður og barni heilsast vel. Ef upp koma vandamál hjá móður eða barni getur það krafist innlagnar á sængurkvennagang. Því miður eru aðstæður á sængurkvennagangi þannig að fleiri en ein kona eru á herbergi og yfirleitt geta feður ekki verið þar yfir nóttina en eru velkomnir yfir daginn.

Þú getur fræðst nánar um aðstæðurnar á kvennadeildinni í þessum bækling sem er hér.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. ágúst 2008.