Spurt og svarað

18. ágúst 2007

Fyrirkomulag sængurlegu á LSH

Góðan daginn!

Þar sem ég er ófrísk að mínu öðru barni langar mig til að forvitnast um fyrirkomulag sængurlegu á Landspítalanum. Upplifun mín þann tæpan sólarhring sem ég dvaldi á Landspítalanum eftir að ég átti mitt fyrsta barn er sambærileg því sem móðir lýsir í fyrirspurninni Sængurlega eftir fæðingu.  Orðið „færibandaframleiðsla” sem fyrrnefnd móðir notaði á vel við, en jafnframt upplifði ég skeytingarleysi. Ég er fullviss um að enginn hafi ætlað að vera ókurteis og veit að fæðingar voru margar þennan dag, en engu að síður hafði þessi upplifun mikil áhrif á mig og hefur enn. Hefði einhver gefið mér 5-10 mínútur af sínum dýrmæta tíma hefði fagmanneskju orðið full ljós að kvíðinn minn væri fullmikill og að ég þyrfti frekari umönnunar. Í svari Margrétar I. Hallgrímsson við áðurnefndu erindi kemur fram að ástæða þess að konur séu sendar heim sólarhring eftir fæðingu sé sú að langflestar konur vilji fara heim. Nú langar mig að vita hvort einhverjar kannanir hafa verið gerðar á meðal kvenna sem hafa farið heim eftir sólarhring – eru þær sáttar eða hefðu þær viljað fá að vera lengur? Getur verið að fyrirkomulagið sem er í Hreiðrinu sé svo heillandi að konur kjósi að fara heim eftir sólarhring bara til þess að geta haft makann sinn hjá sér fyrstu nóttina – án þess raun að treysta sér til þess?  Ég veit að ekki eru allar ljósmæður sáttar við fyrirkomulag Hreiðursins og því langar mig að vita hvort núverandi fyrirkomulag sé í raun það sem nýbakaðar mæður vilja.  Ef fyrirkomulag sængurkvennadeildar væri breytt mundu þá ekki fleiri kjósa að dvelja þar? Hver er þróunin í nágrannalöndunum? Fyrir mitt leiti er ómetanlegt að hafa makann minn hjá mér  í heilan sólarhring eftir fæðingu og mundi ég leggja ýmislegt á mig til þess. Að sama skapi óttast ég neikvæða upplifun af sængurkvennadeildinni ef ég dvel þar í 2-3 sólarhringa – samt er ég ekki tilbúin til að fara heim eftir sólarhring. Mér finnst eins og það sé búið að telja verðandi mæðrum trú um að maður sé „minni manneskja” ef maður ákveður að dvelja lengur en sólarhring. Það er pressað á mann af öllum vígstöðvum að fara heim eftir sólarhring.

Með fyrirfram þökkum, móðir.


Ágæta móðir.

Ég vil byrja á að þakka þér fyrir að tjá þig um þjónustuna sem þú hefur fengið. Ég hins vegar harma það ef þú hefur mætt skeytingaleysi. Það er að mínu mati alveg óviðunandi. Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt fyrir mig að fá upplýsingar um málið til að geta tekið á því og rætt við viðkomandi. Að öðrum kosti hef ég ekki vitneskju um það og get ekki leiðrétt hegðun viðkomandi.

Varðandi Hreiðrið þá er það í raun tilkomið vegna ákveðinnar þróunar sem orðið hefur og ekki síst vegna radda þeirra sem þiggja þjónustuna. Fyrir 10 árum var það eðlilegt að konur sem gengið höfðu í gegnum eðlilegt fæðingarferli lægu allt að 5 daga á spítalanum. Allt annað mynstur var sængurkvennadeildunum tveim þar sem ætlast var til þess að feður kæmu eingöngu á heimsóknartímum og börnin voru ekki inn hjá mæðrum sínum nema hluta úr degi. Víða í hinum Vestræna heim einkum þó í Skandinavíu og Bretlandi var farið að huga að breyttu fyrirkomulagi á sængurleguþjónustunni. Stór rannsókn var gerð í Uppsölum í Svíþjóð (Ulla Waldenström) þar sem rannsakað var hvernig snemmheimkoma eftir fæðingu hentaði konum. Þessi rannsókn sem var veigamikil og aðrar rannsóknir um sama efni komust allar að sömu niðurstöðu að best væri fyrir heilbrigðar konur sem fætt hefðu á eðlilegan máta af fara sem fyrst heim í sitt umhverfi. Ýmislegt studdi þetta m.a. konan svaf betur, hún gat borðað þegar hún vildi, hún hvíldist betur á daginn, faðirinn kom að umönnun barnsins strax, minni hætta var á sýkingum, konan aðlagaðist aðstæðum við umönnun barnsins betur og brjóstagjöf gekk betur og tengslamyndun þótti ganga betur. Hér á Íslandi var farið að skoða þessar rannsóknir sem leiddu til þess að foreldrum var í auknum mæli kynntur möguleiki þess að fara snemma heim eftir fæðingu. Á sama tíma gátu ljósmæður  með samningi við Tryggingastofnun Ríkisins  boðið upp á allt að 11 skipti í heimavitjun til kvenna eftir fæðingu (í dag eru það 8 skipti).
Í fyrstu var þetta val kvenanna. Farið var hægt í sakirnar en í kringum 1999-2000 þá var orðin mjög mikil ásókn í að fara heim eða u.þ.b. 40-45% kvenna sem völdu þetta þjónustuform. Þá var komin tími  til þess á kvennadeildinni að breyta húsnæði og fara að gera ráð fyrir svona breyttu þjónustuformi. Einni sængurlegudeildinni var breytt í Hreiðrið þar sem strax var gert ráð fyrir feðrum og að foreldrarnir fengju að vera í friði í sólahring eftir fæðingu en fara síðan heim og fá allt að 8 skipti heimaþjónustu frá ljósmóður.

Við teljum að þessar breytingar hafi einkum verið gerðar vegna óska frá foreldrum sem höfðu val. Við erum þess einnig fullviss að þjónustan eins og hún er veitt í dag sé mjög góð og hentug foreldrum þ.e. að fá að ná sér eftir fæðinguna í Hreiðrinu og fara síðan heim og fá heimaþjónustu. Konur hafa sagt að heima fái þær í raun tíma með ljósmóðurinni einni sem geti sinnt þeim og enginn hætta á að þær þurfi að sinna einhverjum öðrum á meðan. Í dag fara 64% kvenna heim og fá heimaþjónustu. Við teljum að við höfum verið að breyta þjónustunni í samræmi við niðurstöður rannsókna sem fyrir lágu, í samræmi við raddir neytenda og ekki síst í samræmi við reynslu okkar sjálfra.

Vera má að við þurfum að skoða einstaka tilfelli og höfum við rætt að sjúkrahótel væri góður möguleiki fyrir foreldra sem ekki treysta sér alveg strax heim. Dæmi er um þannig t.d. á Ullevål í Osló og víðar reyndar. Hins vegar er hvergi boðið upp á eins góða eftirfylgni ljósmæðra og hér á landi og erum við ákaflega stolt yfir því.
Mér finnst afar mikilvægt að heyra raddi neytenda þjónustunnar og heyra hvernig upplifun þeirra hefur verið og er ég þér mjög þakklát fyrir að láta heyra í þér. Gaman væri að heyra hvernig þú sæir þjónustuna og hverju við getum breytt og bætt.


Kær kveðja, 

Margrét I. Hallgrímsson
sviðsstjóri/yfirljósmóðir - Kvennasvið LSH,
18. ágúst 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.