Spurt og svarað

03. nóvember 2007

Fyrirkomulag sængurlegu LSH og feðra

Sæl og þakka ykkur fyrir frábæran vef!

Ég er komin á 31.viku og er mikið byrjuð að velta fæðingunni fyrir mér. Mig langar mikið að vera í Hreiðrinu þar sem ég heyrði einhvers staðar að það væri einu staðurinn þar sem hægt er að fæða í vatni. Langaði líka að forvitnast um hvort það væri satt. En svo er ég mjög hrædd um að brjóstagjöfin gangi illa og ég verði bara send heim eftir sólahring. Er ekki hægt að fá að færa sig yfir á sængurkvennadeild ef brjóstagjöfin gengur ekki vel? Og svo var það annað, ef svo til kæmi að ég myndi verða á sængurkvennadeild þá er það mjög mikilvægt fyrir mér að maki minn fengi að vera hjá mér. Ég gæti engan veginn verið ein uppá deild og að hann fái aðeins að vera hjá okkur stuttan part af deginum. Hvernig er þessu háttað? Og hvernig er það ef maður treystir sér ekki til þess að fara heim strax? Hef lesið hérna 2 reynslusögur og líst bara alls ekki á blikuna. Takk fyrir :)


Komdu sæl og takk fyrir að leita á ljósmóðir.is,

Það er gott að heyra að þú sért byrjuð að velta fyrir þér fæðingunni, því ég hef trú á því að allur undirbúningur fyrir fæðinguna gagnist á einn eða annan hátt. Fyrirkomulag á Landspítalanum er í dag þannig að þú getur valið hvort þú viljir fæða á Fæðingargangi eða í Hreiðrinu, en skilyrði fyrir að velja Hreiður sem fæðingarstað er að allt hafi gengið vel á meðgöngunni og að þú sért heilbrigð. Nýverið var gefin út bæklingur frá Landspítalnum, sem þú ættir að geta fengið í mæðraverndinni, þar sem deildir kvennasviðs eru kynntar. Hvað varðar vatnsfæðingar, þá er möguleiki á því að fæða barn í vatni á Landspítalanum, burtséð frá því hvort konan fæðir í Hreiðrinu eða á Fæðingargangi. Hins vegar er það svo að margar konur sem ætla sér að hafa fæðinguna sem eðlilegasta kjósa Hreiður sem fæðingarstað. Því hefur það æxlast þannig að í Hreiðrinu hefur skapast meiri reynsla við vatnsfæðingar. Nú nýverið hafa hins vegar 3 nýjar fæðingarstofur opnað á Fæðingargangi og konur sem velja að fæða þar geta því fætt í vatni ef þær kjósa það, að því gefnu að allt sé eðlilegt. 

Sama er að segja um sængurlegu í Hreiðri. Ef fæðingin hefur gengið vel og parið óskar eftir að fara í heimaþjónustu þá liggur beinast við að velja Hreiður þann sólarhring sem dvalið er á spítalanum. Hins vegar ef eitthvað kemur upp á þeim sólarhring, t.d. með barnið eða ef barn tekur t.d. bara ekki brjóst þá er auðvitað svigrúm að lengja sængurlegu á sængurkvennagangi. Hins vegar er það svo að eftir útskrift að spítalanum er foreldrum boðið upp á heimaþjónustu ljósmóður, sem m.a. styður við brjóstagjöf ef eitthvað gengur ekki eins og það ætti að gera. Heimaþjónustan stendur yfir í rúma viku og oft er það þannig að vandamál í tengslum við brjóstagjöf koma upp á 3ja til 4ja degi og þá er gott að geta leitað til ljósmóður sem þið hafið kynnst. Þannig að ég held að þú ættir ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því „að vera í lausu lofti heima” ef brjóstagjöf gengur ekki sem skyldi.

Varðandi feður og sængurkvennagang er það því miður þannig að plássleysi gerir það að verkum að feður geta ekki dvalið allan sólarhringinn á deildinni, þótt stundum komi fyrir að feður geti gist á spítalanum ef aðstæður leyfa. Feður geta hins vegar verið á deildinni yfir daginn og tekið þátt í umönnun barnsins að vild. Á sængurkvennagangi er boðið upp á sængurlegu í 4 daga eftir eðlilega fæðingu og hana getur þú nýtt þér ef þú treystir þér ekki strax heim. Þá er líka að geta þess að sumum konum sem líst ekki á að fara strax heim eftir fæðinguna hafa valið það að fæða á smærri stöðum til að liggja sængurlegu í heimilislegra og notalegra umhverfi. Þessir staðir eru Akranes, Keflavík og Selfoss og kannski ættir þú líka að kynna þér aðstæður sem þessi litlu sjúkrahús bjóða upp á.

Vonandi gengur þér og ykkur vel.

Bestu kveðjur,

Steinunn H.Blöndal,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
3. nóvember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.