Spurt og svarað

03. september 2007

Góð upplifun af sængurkvennagangi Landspítala

Eftirfarandi bréf barst okkur og það er ljúft að geta birt það hér.

Kærar þakkir fyrir hlý orð í garð starfsfólksins á Landspítalanum.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. september 2007.

 


Sæl.

Í ljósi þess að ég hef lesið tvær fyrirspurnir hér á þræðinum hjá ykkur um sængurleguna á sængurkvennagangi og Hreiðrinu, ákvað ég að segja mína sögu, til að segja hina hliðina.
Ég kom á Hreiðrið þegar ég fór af stað, en þar sem ég vildi mænudeyfingu var ég færð yfir á fæðingarganginn þar sem ég fæddi stóra stúlku eftir mjög svo langdregna og erfiða fæðingu og  ég hef í sjálfu sér fullt út á fæðinguna sjálfa að segja, en það verður ekki gert hér. Eftir fæðinguna missti ég mikið blóð og var send í aðgerð. Eftir hana var ég færð á sængurkvennagang þar sem ég var sett á stofu með annarri konu, en hún var færð annað strax fyrsta daginn þannig að ég var ein það sem eftir lifði af minni dvöl.

Ég er 100% ánægð með allt og alla sem að sinntu mér. Ég var 6 daga inni (þar með talinn dagurinn sem ég kom á hreiðrið). Þær ljósmæður sem voru með mína stofu voru allar yndislegar og hjálpuðu mér þvílíkt mikið, þar sem mikið bras var að koma stelpunni minni á brjóst, og skipti ekki máli hvort að um nótt eða dag var að ræða, alltaf komu þær inn og tilbúnar að hjálpa. Brjóstagjafaráðgjafinn sem var á vakt þessa viku var frábær og þvílíkt klár í því sem hún gerði. Það var hjúkrunarfræðinemi sem var mikið með mína stofu og var hún líka alveg yndisleg. Mér leið næstum því eins og heima hjá mér þessa daga og tel ég það vera algerlega starfsfólkinu að þakka. Það voru kannski 2 manneskjur sem voru svolítið kaldar, en sem betur fer voru þær ekki með mína stofu.

Í sambandi við að börnin séu inni hjá mæðrum á nóttunni vil ég segja að mín stelpa var alltaf inni hjá mér (tek það fram að stelpan þurfti að vera á vökudeildinni fyrsta sólahringinn þannig að fyrstu nóttina voru engin börn þar sem við vorum báðar án okkar barna) nema eina nótt þegar mér gekk ekkert að gefa henni brjóst þar sem lítið var komið í þau og stelpan svöng, þá kom ljósmóðir inn til mín og tók hana fram á vöggustofu, gaf henni og kom ekki með hana aftur fyrr en undir morgun (þetta var um 4) og leyfði mér að hvílast. Ég var alveg rosalega sátt við það. Einnig þurfti ég einu sinni að biðja um að hún yrði tekin fram þar sem við áttum voða erfiðan dag í að koma henni á brjóstið og ég var bara alveg búin á því andlega, og þurfti bara smá tíma og var það ekkert mál heldur.

Einnig langar mig að taka það fram að hluti að fólkinu sem sinnti okkur í fæðingunni kom og heimsótti okkur á stofuna til að athuga hvernig við hefðum það og fannst okkur þessi eftirfylgni einsdæmi. Sem sagt kem ég sko alveg til í að fæða næsta barnið mitt á fæðingargangi LSH og vill liggja á sængurkvennagangi ef ég þarf þess. Kærasti minn hafði orð á því eftir þessa reynslu að þið sem vinnið þessa vinnu, með líf í lúkunum á hverjum degi ættuð öll þau laun og launahækkanir skilið sem þið biðjið um, þvílíkt starf sem þið vinnið.

Með kveðju, Íris - Rosalega sátt við Sængurkvennagang LSH.

P.s. Afsakið langlokuna :)

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.