Hvað er sængurkvennagrátur?

27.10.2013
Sæl, Við eigum von á okkar fyrsta barni og höfum heyrt talað um "sængurkvennagrát". Getur þú sagt mér eitthvað um þetta og hvað hægt sé að gera ef ég fæ þessa upplifun eftir fæðingu barnsins. Takk fyrirSæl vertu og til hamingju með þungunina ykkar.
Bestu þakkir fyrir fyrirspurnina. Í ágætum 
bæklingi hér á vefnum okkar segir svo:
Sængurkvennagrátur er skammvinnt og eðlilegt ástand sem einkennist af skapsveiflum, dapurleika, pirringi, kvíða, einbeitingarskorti, svefnleysi og grátköstum. Sængurkvennagrátur byrjar hjá 40 - 80% sængurkvenna á 2. – 3. degi eftir fæðingu. Einkennin ná yfirleitt hámarki á 5. degi og hverfa innan tveggja vikna (Laufey Ólöf Hilmarsdóttir, 2010).
Einnig er
hér góð grein um sama efni sem lýsir vel einkennum andlegrar vanlíðunar eftir fæðingu, rétt eins og bæklingurinn hér að framan. Rétt er að geta þess að konur geta líka fundið svipuð einkenni og hér er lýst, á meðgöngu. Það er um að gera að tala við ljósmóðurina í mæðraverndinni ef þér líður illa eða hefur áhyggjur af andlegri líðan þinni. Eftir fæðingu er hægt að leita til ljósmæðra á fæðingardeildum eða til þeirra sem sinna heimaþjónustu, og fá þær til að leiðbeina sér ef þörf krefur í tengslum við andlega vanlíðan og fá þá aðstoð sem þörf er á, rétt eins og með önnur vandamál.
Gangi þér vel á meðgöngunni


Björg Sigurðardóttir,
ljósmóðir,
27. október 2013.