Ljósmæður vilja ná til kvenna ? hvar sem þær eru staddar!

22.06.2007

Ljósmæður vilja ná til kvenna – hvar sem þær eru staddar! Þessi orð eru yfirskrift dags ljósmæðra í ár. Ég og konan mín búum 23 km frá Hafnarfirði, í Krýsuvík þar sem ég starfa einnig. Áætlaður fæðingardagur barnsins okkar er 23 júní.  Síðustu 6 vikurnar höfum við reynt með aðstoð ljósmóður okkar í mæðravernd ásamt lækni okkar að finna ljósmóður sem sinnti okkur með heimaþjónustu. Það gengur ekki neitt.  Og hefur valdið okkur kvíða og áhyggjum. Hver skyldi ástæða vera? Líklega þessir 23 km. Fengjum heimaþjónustu ef við byggjum í næstu götu við ljósmóður. Ef ekki, þá erum við ein um að hafa áhyggjur af velferð móður og barns. Þannig að fyrirsögnin, sem er prentuð á kort sem liggja víða frammi, er ekki sönn. Mæli með að henni verði sleppt eða bætt við í sviga fyrir aftan hvaða konum ljósmæður vilja ekki ná til.

Með von um úrbætur, Pétur Ásgeirsson.


Sæll Pétur og takk fyrir að vekja athygli á þessu vandamáli.

Ég er sammála þér um að þessir 23 km séu líklega aðalástæðan fyrir því að þið hafið ekki getað tryggt ykkur ljósmóður í heimaþjónustu.  Ástæðan sem þar liggur að baki er sú að ljósmæður kosta ferðir til sængurkonu að mestu leyti sjálfar. Þar að auki getur sumarleyfistími með tilheyrandi álagi á þær ljósmæður sem eru við vinnu, sett strik í reikninginn.  Það er því ekki að ástæðulausu sem erfitt reynist fyrir ykkur að fá ljósmóður í heimaþjónustu og þykir mér það miður.  Mig langar hins vegar að spyrja hvort þið hafið íhugað fæðingu á minni fæðingadeild (Keflavík, Selfoss, Akranes) þar sem meiri kostur gefst til lengri sængurlegu en hægt er að bjóða á stærri fæðingadeildum eins og LSH?

Bestu kveðjur,

Guðlaug Einarsdóttir,
formaður Ljósmæðrafélags Íslands,
22. júní 2007.