Spurt og svarað

24. janúar 2008

Mótefnamyndun, jákvætt Coombs próf og heimaþjónsta

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Mig langar að forvitnast í sambandi við mótefnamyndun. Ég las hér hjá ykkur í pistlinum um heimaþjónustu ljósmæðra að ef móðir er með mótefnamyndun í blóðinu og Coombs-próf hjá barni jákvætt geti hún ekki fengið heimaþjónustu. Af hverju er þetta? Nú er ég ný búin að eiga og Coombs-prófið var jákvætt og við fengum heimaþjónustu, mér var sagt að það væri meiri hætta á gulu hjá barninu og ég fékk sprautu til að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir aftur. En ég fékk engin svör um hvort þetta hafi einhver önnur áhrif á barnið eða móðurina og var að vonast til að þið gætuð svarað því.


Sæl og blessuð og til hamingju með barnið!

Varst þú með mótefni í blóðinu þínu á meðgöngu eða ertu bara í Rh negatívum blóðflokki? Ég geng a.m.k. frekar út frá því að þú hafir ekki haft mótefni í blóðinu þar sem þið fenguð að fara í heimaþjónustu. Coombs próf mælir mótefni móður á rauðu blóðkornum barnsins sem hafa þá verið til staðar fyrst prófið var jákvætt. Þegar Coombs prófið er jákvætt þýðir það að mótefni frá móður eru til staðar á rauðum blóðkornum barnsins en þau geta brotið niður rauðu blóðkornin og þá er bæði meiri hætta á því að barnið fái gulu vegna niðurbrots á rauðum blóðkornum og einnig meiri hætta á að barnið verði blóðlítið. Mér finnst því líklegt að þessu hafi þurft að fylgja eftir með frekari blóðprufum hjá barninu fyrstu dagana eftir fæðingu.  Ljósmóðirin sem sinnti ykkur í heimaþjónustu hefur einnig fylgst með einkennum um gulu hjá barninu.

Sprautan sem þú fékkst er væntanlega vegna þess að barnið er í Rh pósitívum blóðflokki og kemur þá í veg fyrir að þú myndir mótefni gegn blóði barns í Rh pósitívum blóðflokki sem þú átt ef til vill eftir að ganga með síðar á ævinni.

Miðað við þær upplýsingar sem þú gefur mér þá tel ég að þetta eigi ekki eftir að hafa nein áhrif á heilsu ykkar en eins og þú sérð þá vantar mig svolítið af upplýsingum til að geta svarað þér með vissu. Sendu mér endilega aðra fyrirspurn ef ég hef misskilið þig eða ef þig vantar frekari svör.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. janúar 2008.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.