Mótefnamyndun, jákvætt Coombs próf og heimaþjónsta (frh.)

25.01.2008

Sæl aftur og takk fyrir svörin.

Mér var bara sagt að það hafði orðið mótefnamyndun og Coombs prófið hafi verið jákvætt. Ef Coombs prófið er jákvætt þýðir það ekki að það hafi verið mótefnamyndun í blóðinu hjá mér? Það var fylgst með gulu með einhverjum geisla (það kom ágætlega út) en það var hvorki tekin blóðprufa hjá stelpunni né hjá mér.

Hefur þetta þá engin áhrif á heilsu móðurinnar en barnið getur orðið blóðlítið og fengið gulu?

 


 

Sæl aftur!

Jú, alveg rétt, jákvætt Coombs próf sem gert er á naflastrengsblóði þýðir að móðir hafi myndað mótefni gegn blóði barnsins og þau borist yfir fylgju til barnsins. Ef ekki hafa mælst mótefni hjá þér á meðgöngu þá hefur þetta líklega gerst í fæðingunni. Þessi mótefnamyndun er ansi flókin og sum mótefni eru t.d. ólíkleg til að valda blóðleysi hjá barninu svo kannski hefur þetta verið þannig. Samkvæmt þeim reglum sem gilda um heimaþjónustu þá hefðir þú nú sennilega ekki átt að fara snemma heim. Það er auðvitað aðalatriðið núna að ykkur heilsist vel. Ég held að ég geti fullyrt að þetta hefur ekki áhrif á heilsu þína. Þú getur svo spurt nánar út í þetta í ungbarnaskoðun eða haft samband við þá ljósmóður sem sinnti þér í heimaþjónustu til að fá betri skýringar og upplýsingar.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. janúar 2008.