Óhamingjusamur 3ja mánaða

12.12.2008

Góðan daginn!

Ég skrifa vegna þess að ég er alveg búin á því. Ég er með einn þriggja mánaða sem virðist vera svo óhamingjusamur undanfarið. Hann vaknar grátandi, grætur við brjóstið og fer að sofa grátandi(ég er að reyna að láta hann læra að fara að sofa sjálfan á kvöldin -koma á hann reglu varðandi það). Hann vill BARA vera í fanginu á okkur(og þá helst mér) og oftar en ekki þýðir ekkert annað en að ganga með hann um gólf. Ég get ekki setið með hann. Hann unir sér illa einn og við erum orðin rosalega þreytt á því að geta okkur hvergi hreyft nema með hann á handlegg. Það hefur verið á okkur mikið álag vegna flutninga og námið situr algerlega á hakanum þannig að ástandið hefur verið mjög erfitt andlega og líkamlega. Prófin að nálgast og miklar áhyggjur vegna þess.Sá stutti tekur einstaka sinnum glaða tíma þegar ég leik við hann og þá brosir hann og spjallar út í eitt. Hann hefur verið yfir meðallagi í þyngd og lengd síðan hann fæddist og ekkert amað að honum fram að þessu. Nú eru nýjustu áhyggjurnar mínar þær að ég sé að missa mjólkina því mér finnst brjóstin öðruvísi. Þau stútfylltust um helgina og ég hélt að hann væri að drekka í þau meiri mjólk vegna vaxtakipps en núna finnst mér þau hálftóm. Hvað ef hann er ekki að fá nóg og er óhamingjusamur vegna þess? Hann vaknar á 2 tíma fresti á næturna til að sjúga. Ég hef reynt að gefa honum snuðið en nýjasta nýtt hjá honum er að afneita því  og gersamlega sturlast. Ég læt þá undan og gef honum brjóstið.  Ég trúi því varla að það sé eðlilegt að hann vakni alltaf grátandi eða tuðandi, pirrist og gráti í og eftir brjóstagjöf.Hvað getið þið ráðlagt mér?

Með góðum kveðjum.

 Ein alveg að missa geðheilsuna.


 

Sæl og blessuð!

Það er ekki gott að segja til um hvað er að. Eins og þú bendir á þá virðist barnið þrífast eðlilega. Það kemur ekki fram um hve langan tíma er að ræða sem vandamálin hafa staðið yfir og það er freistandi að halda að þetta tengist álaginu sem er á heimilinu og breytingunum sem yfir hafa dunið. Sum börn eru sérlega næm fyrir öllu raski á reglum og umhverfi.

Það er ekkert sem bendir til minnkandi mjólkur nema þá að áhyggjur þínar geti valdið að flæði fari seint eða illa af stað. Það má laga með slökunaræfingum.

Þú gætir reynt að bakka út úr öllum breytingum sem hægt er og reynt að finna takt sem honum líkar betur. Nánd er greinilega eitthvað sem hann sækir mikið í og sjálfsagt að veita honum hana. Það er partur af að finna til öryggis og hann virðist hafa misst það á einhverjum tímapunkti. Þú mátt alls ekki örvinglast því barnið jafnar sig á breytingunum og þú ert það sem hjálpar honum til þess.

Ef þér finnst eitthvað líkamlega vera að barninu meira en kemur fram í bréfinu er sjálfsagt að leita aðstoðar læknis.

Vonandi hjálpar þetta þér eitthvað.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. desember 2008.