Spurt og svarað

14. febrúar 2007

Samvera foreldra í sængurlegu á LSH

Eitt sem ég hef mikið verið að velta fyrir mér. Þegar fæðing gengur vel fyrir sig og engin vandamál koma upp eiga móðir, faðir og barn þess kost að dveljast í Hreiðrinu. Þegar aftur á móti vandamál koma upp t.d keisari, skilst mér að konan leggist inn á Sængurkvennagang en þar er pabbarnir hins vegar ekki velkomnir nema á heimsóknartímum.

Mér þætti sjálfri mjög miður ef eitthvað kæmi upp á í fæðingunni og ég yrði að vera ein á Sængurkvennadeild og maðurinn minn sendur heim og ég er jafnvel ekki viss um að gæti það. Ég veit að þegar ég er kvíðin hef ég mestan styrk af manninum mínum og mér óskiljanlegt að hann megi ekki dveljast með mér og takast á við málin saman (eins og við hefðum gert ef að allt hefði gengið vel). Þetta veldur mér miklum kvíða þar sem ég er ekki viss um að ég gæti farið að sofa ein eftir erfiða fæðingu.

Eru þarna gömul viðmið eða hver er ástæðan fyrir þessu og rök?

Ein alveg háð manninum sínum.

 


 


Sæl!

Það er ekki alveg rétt hjá þér að pabbar megi vera bara á heimsóknartímum hjá sinni konu og barni. Heimsóknartími er frá 17 -19 alla daga en það er nokkuð frjáls viðvera hjá feðrum á Sængurkvennagangi, einnig höfum við verið að reyna að koma á móts við þessar þarfir og höfum leyft feðrum að gista hjá sinni konu og barni ef þess er kostur. Það vantar ekki viljann til að reyna að láta þessa samveru ganga upp en auðvitað erum við hér á Sængurkvennadeild háð umhverfi og aðstæðum þ.e.a.s. ef fullt er á deildinni geta feður ekki fengið að gista og svo er húsnæðið ekki hannað til þess að þetta geti orðið fastur punktur. En breytinga er vonandi að vænta í nánustu framtíð og við gerum eins vel og við getum eftir aðstæðum hverju sinni.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir á Sængurkvennadeild,
14. febrúar 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.