Slakur grindarbotn

29.08.2004

Það eru 6 vikur síðan ég eignaðist mitt fyrsta barn og ég finn að grindarbotnsvöðvarnir eru afar slakir.  Ég á erfitt með að stoppa bununa ef ég pissa og einnig missi ég smá þvag þegar ég hnerra, hósta eða hlæ. Þetta kemur mér á óvart þar sem ég var frekar dugleg að gera æfingar á meðgöngunni auk þess sem ég er búin að gera grindarbotnsæfingar á hverjum degi frá fæðingunni án þess að mér finnist ég ná betri stjórn.  Fæðingin sjálf var frekar auðveld en mjög hröð. Er líklegt að vöðvarnir hafi skaðast varanlega eða er alltaf hægt að ná fyrri stjórn ef maður er nógu duglegur í æfingunum ?  Ég hef nokkuð miklar áhyggjur af þessu og tæki öllum ráðum með þökkum.  Einnig langar mig að vita hvort þetta er algengt þar sem ég hef aldrei heyrt konur tala um þetta vandamál eftir fæðingu.

                              ............................................................

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Þetta vandamál er töluvert algengt eftir fæðingu en því miður er þetta svolítið feimnismál hjá mörgum og því ekki rætt mikið um þetta.  Það er leiðinlegt að missa þvag og jafnvel hægðir eftir fæðingu en í flestum tilvikum er hægt að laga þetta, en það tekur tíma.  Ráðið er grindarbotnsæfingar og aftur grindarbotnsæfingar. 

Þú þarft að vera viss um að þú sért að gera æfingarnar rétt, þú getur fundið það með því að reyna að stoppa þvagbununa einstaka sinnum en ekki of oft því það getur leitt til vandamála við þvaglát seinna meir.  Það er líka gott ráð að setja tvo fingur inn í leggöngin og spenna og þá finnur þú hvort vöðvarnir herpast saman, einnig getur þú spurt manninn þinn hvort hann finni herping þegar limurinn er inn í leggöngunum.  Ef þú finnur herpinginn ert þú að gera þetta rétt. Þú skalt samt ekki örvænta þó þú finnir lítið fyrir spennunni í fyrstu (og þá er ég að tala um fyrstu mánuðina) þetta kemur.

Þú þarft líka að gera grindarbotnsæfingarnar oft á dag.  Það er ágætt að gera þær alltaf þegar barnið drekkur til dæmis því þá verður þetta hluti af þeirri rútínu.  Gerðu ýmist að spenna og losa eða hugsaðu þér að grindarbotnsvöðvarnir myndi lyftu sem þú þarft að lyfta hærra og hærra þ.e. að spenna meira og meira 4-5 sinnum og slaka svo.

Þetta tekur langan tíma en ef þér finnst árangurinn láta á sér standa þá getur þú fengið álit hjá sjúkraþjálfara.

Gangi þér vel.

Yfirfarið 19.6.2015