Spurt og svarað

23. október 2009

Takmarkaðar heimsóknir vegna svínaflensu

Sæl og takk fyrir góðan vef!

Það sem er helsta umræðan nú í dag meðal ófrískra kvenna er að búið sé að takmarka heimsóknarrétt á spítala eða fæðingardeildir vegna svínaflensu. Þ.e.a.s. að það sé búið að banna heimsóknir ættingja, nema föður barnsins og að faðir barnsins megi eingöngu vera viðstaddur fæðinguna. Finnst þetta svo sem allt í lagi og þetta angrar mig lítið bara leiðinlegt að vita ekki alveg upp á hár hverju maður á að trúa. Hvert er sannleiksgildið í þessu og á þetta við alla spítala?

Kveðja, Akureyrarbumba.


Sæl og blessuð!

Þetta er alveg rétt og er gert til að vernda inniliggjandi sjúklinga svo og konur sem eru að fæða og nýfædd börn þeirra. Farsóttanefnd Landspítala hefur mælst til að almenningur takmarki  heimsóknir sínar til sjúklinga á sjúkrahúsinu eins og kostur er. Margar deildir hafa þegar takmarkað heimsóknir og er fólk vinsamlegast beðið að virða þær takmarkanir. Fólk sem hefur einkenni flensunnar á borð við hálssærindi, hita, beinverki og hósta er beðið um að koma alls ekki í heimsókn á spítalann, aðrir aðeins ef þeir eiga brýnt erindi og þá í samráði við starfsfólk viðkomandi deildar.

Mér er ekki kunnugt um hvernig þessu er háttað á öðrum sjúkrahúsum en þar sem ansi margir eru með svínaflensu þessa dagana ætti fólk að takmarka heimsóknir til nýfæddra barna hvort sem þau eru á sjúkrahúsi eða nýkomin heim. Barnshafandi konur og þær sem eru nýbúnar að fæða ættu að viðhafa þær varúðarráðstafanir sem hægt er til að forðast svínaflensu.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. október 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.