Spurt og svarað

24. október 2005

?Bobbasjúk? stúlka

Jæja, nú verð ég að leita ráða.

Ég á stelpu sem er að verða 7 mánaða. Ég hef alltaf verið með hana á brjósti og er enn, en er að reyna að minnka brjóstagjöfina smátt og smátt. Þegar við fórum í sex mánaða skoðun fannst hjúkrunarfræðingnum og lækninum hún heldur létt og sögðu okkur að gefa henni meiri mat sem og við gerðum og það gengur mjög vel. Fær hafragraut í morgunmat, soðið grænmeti í hádeginu, banana síðdegis og svo speltgraut í kvöldmat og ávöxt eða grænmeti í eftirmat. Reynum einnig að láta hana drekka vel af vatni og aðeins að byrja að reyna að gefa henni stoðmjólk. Þetta gengur vel og að fækka gjöfunum yfir daginn einnig.

En svo kem ég að vandamálinu og það er að hún hefur alltaf vaknað mjög oft á nóttunni til að drekka, og einnig á kvöldin. Ég hef auðvitað stundum verið dálítið þreytt á þessu en vildi alls ekki að hún væri svöng en hún drekkur oft og lítið í einu svo ég reyndi aldrei að svæfa hana aftur á annan hátt en með brjóstinu. Núna er hún að sjálfsögðu saddari þegar hún fer að sofa svo við bjuggumst við því að brjóstastandið á nóttunni myndi minnka en það gerist ekki. Hún er alveg „bobbasjúk“ stelpan:) Hún vaknar alltaf þegar ég fer upp í rúm og sefur svo u.þ.b. 3 klst en er svo vaknandi á 1 - 2 tíma fresti fram á morgun og svo hangir hún á spena frá svona 6-8 en þá vöknum við alveg. Nú er svo komið að ég er orðin ákaflega þreytt og er einnig farin að þrá að geta farið út um kvöld án þess að þurfa að hafa áhyggjur af henni og manninum mínum. Hef tvisvar sinnum farið í leikhús eftir að hún fæddist og í bæði skiptin kostaði það mikinn grát, þrátt fyrir alls kyns hundakúnstir hjá manninum mínum. Ég prófaði eina nótt að sofa í stofunni og maðurinn minn vaknaði bara með henni en hún var gjörsamlega óhuggandi. Hann reyndi að bjóða henni vatn, snuð, knús og kossa en hún bara grét og grét. Við gátum ekki meira þegar hún var búin að gráta í næstum klukkustund og ég gaf henni og hún var með ekka í langan tíma á eftir. Við ætluðum með þessu að reyna að lengja dúrana hjá henni og smám saman venja hana af því að fá brjóst.

Er hún bara ekki tilbúin eða eigum við bara að „taka okkur saman“ og hlusta á hana gráta svona mikið og lengi? Áttu einhver ráð handa okkur? Hún er ekki mikil „duddukona“ og er rosalega skapstór. Annars sefur hún rosalega vel á daginn og líður mjög greinilega ákaflega vel því hún er alltaf glöð og kát á daginn. Ég held að þetta sé einhver vani hjá henni sem veitir henni visst öryggi á nóttunni. Afsakið hvað þetta varð langt. Takk fyrir góðan vef annars.

...................................................................

Sæl og blessuð!

Ég hef svo sem nefnt þetta áður á þessari síðu en það er þannig með brjóstabörn að ef þau eru svipt brjóstagjöfunum sínum á daginn þá færast þær bara yfir á næturnar. Það er ekkert skrýtið eða einkennilegt við það. Þú verður að athuga það að hjá 7 mánaða barni er brjóstamjólkin undirstöðu fæðan. Í henni eru ÖLL efnin sem barnið þarf og það sem slekkur næringarþörfina hraðast og best. Annar matur er meira til uppfyllingar. Þau eru nýbyrjuð að fá hann, þau geta ekki fullmelt hann og hann er næringarlega ekki jafn góður og móðurmjólk. Þannig að þú þarft að finna einhverjar aðrar leiðir til að komast út í pásur.

Ég er svolítið hissa á að þú gefir ekki graut eða eitthvað á kvöldin fyrir nóttina og takir þá út brjóstagjöf í staðinn. Það mætti sleppa einhverri dagmáltíð í staðinn. Það er hjá mörgum byrjunin á að brjóstagjafirnar detti út á kvöldin. En það er alveg rétt ályktað hjá þér að hún er ekki tilbúin til að fara að sofa allar nætur. Hún þarf bæði næringuna sína og nærveru þína. Fyrir henni er þetta guðdómlegur tími. Og þú þarft að hafa allt verulega vel undibúið og sjálf tilbúin til að svipta hana honum.

Með ósk um rólega og góða afvenjun þegar þar að kemur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. október 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.