Spurt og svarað

26. október 2007

?Brjóstafýla?

Mér tekst ekki að koma reglu á brjóstagjöfina eftir brjóstaverkfall sem stelpan 9 mánaða tók fyrir rúmri viku. Suma daga vill hún 6-7 gjafir aðra daga aðeins eina gjöf (bítur og lætur illa ef ég reyni að halda að henni brjóstinu). Þetta veldur mér miklum óþægindum þar sem ég fæ „pirruð brjóst“ þegar mér tekst ekki að gefa henni. Gæti verið að mjólkin sé að klárast? Hvað ráðleggið þið mér að reyna lengi (mig virkilega langar til að halda áfram með hana á brjósti en ég er ekki tilbúin að vera með stanslausar mjólkurbólur og/eða þurfa að mjólka mig þegar stelpan er í brjóstafýlu. Er ekki nauðsynlegt að hún fái aðra mjólk þá daga sem hún vill ekki brjóstið?

Kveðja, Helga

p.s. búin að leita mikið í brjóstafyrirspurnunum en ekki fundið neitt um þennan fylgikvilla brjóstaverkfalla (þó að líklega reynist svarið í einhverri fyrirspurn).  Kannski yrðu þeir aðgengilegri með aðeins meiri kaflaskiptingum.


Sæl og blessuð Helga.

Já, þetta er vandamál sem kemur stundum upp í kjölfar brjóstaverkfalls. Þetta er svo sem líka hegðun sem sést hjá börnum sem eru um það bil að hætta brjóstagjöf af eigin frumkvæði. Ef hún er „bara“ að jafna sig á brjóstaverkfallinu þá er þetta tímabundið ástand og það kemst aftur ákveðin regla á gjafafjölda og tíma. Ef þetta er byrjunin á endanum þá getur þetta tekið svolítinn tíma en yfirleitt fækkar þá gjöfunum smá saman eða þeim dögum fjölgar þegar fáar gjafir eru teknar. Þú reynir eins lengi og þér finnst þú þurfa að reyna en ekki eins lengi og einhver segir þér. Þú finnur þetta best. Ég skil vel að þetta sé erfiður tími og þetta er mikið álag á brjóstin. Nei, mjólkin er ekki að „klárast“. Hún heldur áfram að framleiðast í samræmi við það sem barnið tekur. Þú þarft hins vegar að sleppa því að mjólka þig nema þegar þú ert illa haldin í brjóstunum.
„Brjóstafýla“ finnst mér hins vegar frábært orð. Aldrei heyrt það áður en ég held að það lýsi mjög vel ástandinu sem þú ert að tala um. Nei, hún þarf ekki aðra mjólk þegar hún tekur ekki brjóstið en einhvern mjólkurmat þarf hún að fá.

Vona að þetta hjálpi. 

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. október 2007.

p.s. fjöldi fyrirspurna er að verða mjög mikill og það gerir leitina erfiðari. Það er gott að fara fyrst inn í flokkinn, t.d. Brjóstgjöf og slá inn leitarorð í leitarglugganum þar - því þá er eingöngu leitað í þeim efnisflokki.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.