?Eitruð? brjóstamjólk

26.10.2006

Góðan dag!

Ég bara má til með að senda ykkur fyrirspurn. En þannig er málið að hér á kaffistofunni í vinnunni hjá mér barst í tal brjóstagjöf og við mæðurnar á staðnum tjáðum okkur að flest allar konu gætu haft börn á brjósti. En þá andmælti einn vinnufélagi okkar harðlega, hann er karlmaður og er um 42 ára. Hann sagði að móðir sín hefði ekki getað haft hann á brjósti vegna þess að hún hefði fengið fæðingareitrun (ekki meðgöngueitrun) og því hefði eitur komist í blóðið og þar með í brjóstamjólkina og hún því ekki getað gefið nýfædda barninu sínu eitraða mjólk! Þessu mótmælti ég og sagði að þetta væri gömul kredda sem haldi hafi verið fram um konur hér í gamla daga sem fengu fæðingarþunglyndi (sturlun). Honum var óhaggað með þetta og brást eiginlega bara illa við og sagði að ég hefði bara ekki hugmynd um þetta, svona hefði þetta verið og að móðir hans ætti nú að vita það! Það þýddi nú ekkert að mótmæla og því set ég þessa spurningu inn hér til að fá úr þessu skorið hvað sé rétt í þessu. Er hægt að fá fæðingareitrun sem fer í brjóstamjólkina og eitrar hana þannig að móðir geti ekki haft barn sitt á brjósti?

Með fyrir fram þökk, K.Þ.

 


 

Sæl og blessuð K.Þ.

Hér er líklega á ferðinni misskilningur hjá ykkur báðum. Fæðingareitrun er annað nafn yfir meðgöngueitrun þ.e. þegar í fæðinguna er komið. Hún er ekkert frábrugðin með það að engin eiturefni fara yfir í mjólkina. Það eru hins vegar oft gefin sterk og mikil lyf í fæðingu ef svæsin meðgöngueitrun er til staðar og þá er stundum hinkrað við með brjóstagjöf en það er bara í stuttan tíma. Þú virðist á hinn bóginn hafa verið að tala um mun eldri trú. Það var sú trú að nýorðnar mæður sem urðu andlega veikar hefðu orðið það vegna þess að brjóstamjólkin komst út í blóðið. Það getur verið mjög erfitt að leiðrétta svona misskilning og það eru margar konur sem trúa staðfastlega einhverju sem þeim var sagt fyrir fjöldamörgum árum án þess nokkurn tíma að hafa kannað málið frekar. Þannig að í stuttu máli þá er ekkert til sem heitir eitruð mjólk og konur sem fá meðgöngu/fæðingareitrun geta haft barn sitt á brjósti. Vona að þetta eyðileggi ekki móralinn í vinnunni.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. október 2006.