?Túrverkir? við brjóstagjöf

09.05.2005

Strákurinn minn er 3 mánaða og er eingöngu á brjósti. Ég byrjaði á blæðingum nýlega en fæ mikla túrverki í hvert sinn sem ég legg hann við brjóstið. Verkirnir eru meira eins og samdráttaverkir en túrverkir. Er þetta alveg eðlilegt og má ég búast við að þetta verði svona áfram á meðan hann er á brjósti?

.....................................................................

Sæl og blessuð!

Já, það er fullkomlega eðlilegt að þú fáir túrverki þegar þú leggur barnið á brjóst og ert á blæðingum. Hormón (oxytósín) sem verkar á sléttu vöðvana kringum mjólkurblöðrurnar veldur því að þær dragast saman og mjólkin spýtist út úr blöðrunum, niður mjólkurgangana og barnið getur náð henni þar. Þetta hormón verkar líka á slétta vöðva legsins þannig að það dregst saman. Það veldur því sem við í daglegu tali köllum túrverki. Konur finna alltaf misvel fyrir þessum verkjum en sumum finnst þeir meira áberandi í brjóstagjöf. Þú getur þó alltaf huggað við það að þeir eru að „vinna gott starf” og heldur stytta blæðingartímann. Þú mátt búast við að finna fyrir þeim á meðan þú ert með barnið á brjósti en mismikið þó. 

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. maí 2005.