Spurt og svarað

18. september 2006

10 mánaða brjóstakall sem bítur

Sonur minn er 10 mánaða og tók nýverið upp á þeim ósið að bíta mig í brjóstin. Hann er kominn með 6 beittar tennur og hefur tekist að bíta mig til blóðs. Eldri sonur minn gerði þetta nokkrum sinnum en lærði fljótt að bíta ekki. Þegar hann beit æpti ég upp yfir mig og tók hann af brjóstinu og sú aðferð virkaði alveg. Yngri sonurinn (núverandi brjóstabarn) er harðari af sér. Hann brosir bara og hlær þegar ég æpi og kippist til og nú veit  ég hreinlega ekki hvað ég get gert til að venja hann af þessu. Núna er ég með sár á öðru brjóstinu sem mig verkar í, í hvert sinn sem hann drekkur. Mig langar ekki til að hætta með hann á brjósti strax (var með hinn í tæp tvö ár og langar að endurtaka það) en get auðvitað ekki látið hann bíta mig áfram. Ég er búin að sjá aðra fyrirspurn um sama efni en aðferðin þar virkar ekki hér. Eigið þið einhver ráð handa mér?

Kveðja, V.


Sæl og blessuð V.

Ráðið sem þú ert að lýsa er það mest notaða við þessum englum sem þurfa að nota tennurnar svona mikið. Að gefa frá sér hljóð sem helst gerir þau hissa eða lætur þeim bregða pínulítið. Það þarf þó alltaf missterkt áreiti við mismunandi einstaklinga. Ég ráðlegg þér að prófa þig áfram. Það gengur náttúrlega ekki að fá bros í staðinn þótt þau séu sæt. Þá ertu bara að gera eitthvað skemmtilegt. Um leið og bitið er, er barnið tekið af brjóstinu og ef þau láta sér ekki segjast er stoppið á gjöfinni haft lengra og svo enn lengra. Það þarf líka að tryggja að barnið fái eitthvað í munninn til að reyna tennurnar á. Það gæti t.d. gefist vel að um leið og bitið er, er barnið tekið af og settur upp í það tannhringur, kexkaka eða bruða sem það má bíta í. Þegar það er svo búið að bíta nægju sína getur gjöfin haldið áfram. Sumum finnst gefast vel að gefa þeim eitthvað mjög kalt í munninn. Kuldinn virðist deyfa þörfina til að bíta hjá sumum börnum. Mundu bara að þetta er tímabil sem gengur yfir hjá öllum börnum. Þú ferð ekki að hætta núna þegar þér gekk svona vel með fyrra barnið. Og passaðu vel sárin sem myndast við bitin. Þeim er mun hættara við sýkingum en sár sem myndast á fyrstu vikum brjóstagjafar. Fáðu sýkladrepandi krem ef þau gróa ekki á fáeinum dögum. Gangi þér vel.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.