18 mán. á brjósti og ný þungun

22.02.2015

Hæ hæ!

Ég var að fá jákvætt þungungarpróf í morgun og ætti skv. útreikningum ykkar að vera komin tæpar 5 vikur. En þannig er mál með vexti að ég á einn 18 mánaða kút sem er brjóstasjúkur. honum finnst svo svakalega gott að fá sér brjóst og hann fær það alla morgna og á kvöldin áður en hann fer að sofa. Það sem ég hef áhyggjur af er hvernig ég get tæklað það að láta hann hætta á brjósti þar sem mér finnst mjólkin hafa minnkað undanfarna daga. Og hann er orðinn mjög pirraður á brjóstinu þar sem að það kemur svo lítið. Eruð þið með einhver ráð handa mér?
Sæl og blessuð og til hamingju með nýja þungun!

Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að venja barnið af brjósti þótt ný þungun sé komin til. Barnið getur orðið pirrað í nokkra daga en það er yfirleitt talið vera vegna bragðbreytinga á mjólkinni. Það jafnar sig svo aftur. En ef þú ert staðráðin í að hætta þessari brjóstagjöf er ráðlegt að taka fyrst út daggjöfina. Láta líða um viku áður en þú tekur út kvöldgjöfina. Gefa annað hvert kvöld nokkur skipti og hætta svo alveg. Þú getur boðið vatn í stútkönnu í staðinn eða eitthvað annað fljótlegt sem honum finnst gott.

Gangi þér sem best.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. febrúar 2015.