Spurt og svarað

05. nóvember 2014

3ja mán. Enn þanin brjóst

Góðan dag og takk fyrir góðan vef !

Ég er með þriggja mánaða dreng sem dafnar vel. Þriðja barn mitt á brjósti. Hann er vær og ljúfur en mig grunar þó að stundum sé smá bakflæði að trufla hann. Ætla að fá lækni til að kíkja á hann þó að þetta sé greinilega ekki eins alvarlegt og hjá mörgum. Þetta hefur suma daga valdið því að hann er svolítið fúll þegar ég legg hann á brjóstið. Suma daga gengur því brjóstagjöfin ekki nægilega vel því hann neitar að taka brjóstið þó hann sé svangur. Ég róa hann og býð aðeins síðar og það gengur yfirleitt. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvenær brjóstin á mér fari að balanserast almennilega. Gjafamynstrið er nánast eins alla daga hjá okkur. Ég gef 10 sinnum á sólarhring með 2-3 tíma millibili nokkuð jafnt yfir daginn Hann sofnar í kringum kl. 21, vaknar um miðnætti og drekkur, aftur um 3.30 og svo upp úr kl. 7. En mér finnst ég enn ansi þanin þegar ég vakna á morgnana. Mig grunar að þetta tengist aðeins dögunum þar sem hann drekkur ekki nægilega vel. Er ég bara ekki enn komin á það stig í brjóstagjöfinni að hætta að finna svona mikið fyrir þessu? Ég er meira stressuð yfir því að brjóstin séu ánægð en barnið. Ég er stressuð þegar ég finn eymsli í brjóstunum, þó að það jafni sig í næstu gjöfum. Það er óþægilegt að byrja marga daga með þanin brjóstin. Ég á ekki pumpu og hef eiginlega ekki viljað fara inn á þær brautir til að rugla ekki öllu saman. En ég spyr. Er þetta eðlilegt og mun jafna sig? Eru þetta óværu dagarnir sem eru alltaf að rugla mynstrið?

Bestu kveðjur, María.
Sæl og blessuð María!

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við þetta. Þetta er þó þriðja brjóstagjöfin þín og ef þú hefur ekki fundið fyrir þessu í hinum brjóstagjöfunum er líklegt að þessi sé heldur óreglulegri en hinar. Það kemur trúlega að því að brjóstin aðlagast ástandinu en þó eru til konur sem tala um að þær finni fyrir þani í brjóstum alla brjóstagjöfina. Aðalatriðið er að þú sért ekki að stressa þig yfir þessu. Þetta er ekkert til að stressa sig yfir. Þetta eru bara þín brjóst og þau eru svona og allt í lagi með það. Það myndi bara gera ástandið verra ef þú færir að pumpa.
Gangi þér sem best!
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. nóvember 2014.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.