Spurt og svarað

11. mars 2012

3ja mánaða og vill bara annað brjóstið

Sæl!

 Mig vantar ráð í sambandi við brjóstagjöfina. Litla mín er rúmlega 3.mánaða og brjóstagjöfin hefur gengið svona nokkuð vel. Nema núna virðist hún ekki vilja hægra brjóstið. Ég hef prófað að pumpa eftir að hún er hætt að drekka og það virðist koma alveg 10-30 ml. úr því. Mér finnst samt sem áður eins og vinstra brjóstið sé hraðara að fyllast aftur. Mín spurning er: Get ég gert eitthvað til að jafna þetta út og á ég að bjóða henni alltaf fyrst hægra brjóstið? Ég vil helst ekki lenda í vandræðum núna þar sem þetta hefur verið að ganga vel. Hún lét svona líka þegar hún tók út 3.mánaða vaxtakippinn og var alltaf að slíta sig af brjósti og varð mjög pirruð í 4-5 daga en síðan lagaðist það. Ég var bara dugleg að setja hana á brjóst og leyfa henni að drekka þegar hún vildi. Núna er þetta svipað með bæði brjóstin en hún virðist fúlsa frekar við hægra brjóstinu.


 

Sæl og blessuð!

Þetta hljómar eins og brjóstagjöfin gangi mjög eðlilega fyrir sig. Á þessum aldri fara börn að sýna aðra hegðun við brjóstið en áður. Það hefur með þroska þeirra að gera en ekki innihald brjóstanna. Mörg börn vilja taka annað brjóstið fram yfir hitt og þá er mikilvægt að stýra þeim blíðlega í hina áttina. Mér skilst að þú gefir bæði brjóst í hverri gjöf. Þá er yfirleitt talið betra að byrja ekki á sama brjóstinu 2 gjafir í röð heldur skipta alltaf. Þegar byrjað er á „óvinsælla“ brjóstinu er það gefið tvisvar þ.e. í byrjun og aftur í enda gjafar. Það getur líka hjálpað að örva brjóstið áður en barnið er lagt á þannig að flæðið sé byrjað þegar barnið grípur. Eftir nokkra daga er yfirleitt allt fallið í ljúfa löð.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11.mars 2012.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.