4 daga aðskilnaður við 7 mánaða

12.03.2009

Hæ hæ og takk fyrir góðan vef!

Ég er með einn tæplega 5 mánaða sem gengið hefur rosa vel með að öllu leyti. Þegar hann verður 7 mánaða ætla ég í 4 daga til útlanda og hann verður heima hjá pabba sínum á meðan. Hann er ennþá eingöngu á brjósti en planið er að hann fari að fá mat 6 mánaða ef ekki fyrr. Ég ætla að vona að ég verði búin að mjólka mig nóg handa honum í frystinn. Það sem ég
er að velta fyrir mér er tvennt. Annars vegar hvort ég þarf að mjólka mig jafn oft og hann hefði annars drukkið til að halda framleiðslunni við á meðan ég er í burtu? Hins vegar er kvíði í mér að fara frá honum í 4 heila daga. Ég er svo hrædd um að hann missi tengslin við mig eða jafnvel vilji svo ekki brjóstið þegar ég kem aftur. Hafið þið einhverjar reynslusögur af svona fjarveru?

Bestu kveðjur. E


 

Sæl og blessuð E!

Þú ættir ekki að þurfa að mjólka þig jafnoft í fjarverunni og heima. Kannski 1-2 skiptum færra. Þetta varðandi tengslin er mun flóknara. Það er misjafnt hvernig börn bregðast við svona aðskilnaði. Það fer dálítið eftir persónuleika hvers og eins. Sum láta sér fátt um finnast og virðast þokkalega sátt. Önnur láta sig hafa það, draga sig svolítið inn í skel og koma aftur út þegar mamma kemur til baka. Svo eru alltaf nokkur sem eru mjög ósátt og sýna það berlega. Eitt og eitt verður svo verulega móðgað og er nokkurn tíma að taka móður sína í sátt aftur eftir heimkomuna. Flest vilja nú taka brjóstið aftur eftir mislangan tíma og það verður þá mikil gleðistund.

Vona að gangi vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. mars 2009.