Spurt og svarað

10. mars 2004

Á að hætta brjóstagjöf eða ekki?

...ég er með eina 2ja og hálfsmánaðar gamla stelpu. Ég hef verið með hana á brjósti en alltaf þurft að gefa henni ábót með pela. Ég fór í brjóstaminnkun fyrir nokkrum árum og mjólka því ekki nóg. Hafði gert það hjá fyrri börnum. Nú er svo komið að hún þarf sífellt meir og meir en það eykst ekki mjólkin hjá mér. Hún er einnig farin að vera pirruð á brjóstinu. Á ég að hætta með hana eða halda þessu til streitu? Er það ekki oft þannig að þegar þau eru farin að þekkja pelann, eins og hún gerir núna að þau vilji ekki brjóstið meir? Ég myndi gjarnan vilja hafa hana áfram á brjóstinu en pirringurinn hennar er farin að pirra mig.

...............................................................

Þegar börn eru orðin 10 vikna er magn mjólkur sem þau drekka úr brjósti orðið býsna stöðugt. Þ.e.a.s. magnið eykst ekki sem neinu nemur svo vikum skiptir svo fremi barnið drekki reglulega. Það sem breytist er næringarinnihald mjólkurinnar. Það aðlagast þörfum barnsins jafnóðum. það mætti orða það þannig að mjólkin verði sífellt „sterkari“ eftir því sem barnið þarfnast. Þetta er ólíkt því sem gerist með þurrmjólk. Barnið krefst sífellt aukins magns af henni og þar að auki er verið að reyna að auka næringarinnihald með því að breyta styrkleika.

Nú kemur ekki nógu vel fram hvað þú átt er við þegar þú talar er um að barnið þurfi meir og meir. Þú veist væntanlega ekki hvað barnið fær mikið úr brjóstinu frekar en aðrar mæður, þannig að annaðhvort er barnið að biðja um fleiri gjafir eða það vill sífellt meira í ábót. Ef barnið vill fleiri gjafir er það gott mál. Það bendir til vaxtarspretts en þeir koma alltaf annað slagið alla brjóstagjöfina. Því þarf bara að svara að kröfu barnsins. Ef ábótin er sífellt að aukast getur það bæði þýtt það sem rætt var hér á undan eða að barnið drekki minna af brjósti (styttra,sjaldnar) þannig að það þurfi að bæta sér það upp.

Hitt atriðið sem þú spyrð um er varðandi pirring við brjóstið. Það er rétt ályktað hjá þér að börn sem fá pela reglulega verða fráhverf brjósti fyrr eða síðar. Þetta byggist einfaldlega á hraðara flæði. Flestar pelatúttur eru hannaðar þannig að þær gefa margfalt hraðara flæði en brjóst og þar að auki hiklaust. Það er því hungur sem rekur börn til að taka hratt framyfir hægt og notalegt.  Þú getur reynt að kaupa túttu með hægara flæði (sílíkon, 1 gat, nokkrar sekúndur milli dropa sem leka úr skáhallandi pela) en ég vil líka nefna hjálpartæki sem heitir hjálparbrjóst (fæst í apótekum).  Það hefði átt að kynna fyrir þér þegar ljóst var að þú myndir ekki mjólka nægilega eftir aðgerðina. Hjálparbrjóst byggist upp á plastflösku sem ábótin er sett í og hengd síðan um hálsinn þannig að hún liggi á bringu með stútinn niður. Úr stútnum liggur grönn slanga sem leidd er eftir brjóstinu og límd föst niður þannig að endinn nái u.þ.b. 1 sm. framfyrir vörtutopp. Síðan er barnið lagt á brjóst. Það tekur bæði vörtuna og slönguendann upp í sig og sýgur bæði brjóstamjólk og ábót í einu. Hjálparbrjósti fylgja 3 slöngur misvíðar til að stjórna hraða flæðisins. Flest börn taka þessu tæki mjög vel og verða ánægðari á brjósti, fyrir nú utan tímann og vesenið sem þetta sparar mömmu.

Baráttukveðjur,                                                                                      
Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi - 10. mars 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.