Spurt og svarað

31. mars 2009

Á að vekja börn?

Halló og takk fyrir frábæran vef!

Ég notaði hann óspart á meðgöngu og nú á ég 8 vikna yndislega stúlku. Langaði að vita hvort eigi að vekja börn á þessum aldri til að drekka á nóttunni. Þannig er að hún sefur lítið yfir daginn, svona 10 mín. dúra hér og þar. Það virðist alltaf vera eitthvað sem vekur hana vegna þess að hún er eldrauð í augunum og virðist vera pirruð yfir því að geta ekki sofið meira. En á kvöldin drekkur hún um kl.21 og sofnar svo kl.22. Það er eins og það sé háttatíminn hennar. Hún sefur til kl.4 drekkur og sefur til 7. Það sem ég vildi vita er að stundum vaknar hún ekki sjálf en ég vakna um 4 og gef henni. Hún opnar ekki einu sinni augun og heldur svo áfram að sofa. Ég hef ekki þorað að láta hana sofa lengur án þess að borða. Er hún of lítil til að vera án þess að drekka til morguns? Annað er að milli kl. 6 og 7 er hún alltaf að rembast í svefninum. Þetta skeður á hverri nóttu. Er þetta eðlilegt?

Kær kveðja. Hrönn.

 


Sæl og blessuð Hrönn!

Það er allt í lagi að lofa henni að sofa eins lengi og hún vill. Þetta er kannski meira spurning um brjóstin. Ef  þú vaknar vegna þennslu eða óþæginda í brjóstum þá finnst mér í lagi að vekja barnið og gefa því. Ef þú hins vegar getur sofið þá er um að gera að sofa og hvílast.

Varðandi þennan rembing sem þú ert að tala um á nóttunni þá er hann mjög algengur hjá ungbörnum. Það gefur oft góða raun að láta þau breyta um stellingu. T.d. setja þau úr baklegu á aðra hliðina.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. mars 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.