Á brjósti í nokkur ár

11.03.2012

Sæl Katrín Edda!

 Mig langar til að spyrja þig nokkurra spurninga um langtímabrjóstagjöf. Ég er ein þeirra sem kýs að hafa börnin sín lengi á brjósti. Fyrsta var í tvö ár, annað í þrjú og þriðja er enn á brjósti rúmlega þriggja ára gamalt. Telur þú að svona löng brjóstagjöf sé góð fyrir móður og barn? Mér hefur þótt þetta mikilvægur og góður hluti uppeldisins og ég er sannfærð um kosti brjóstagjafar. Nándin er yndisleg og börnin eru einstaklega hraust. Þau veikjast eins og aðrir en yfirleitt aðeins veik í einn dag. Ég veit að rannsóknir hafa sýnt að brjóstabörn eru skemur veik og því þakka ég brjóstagjöfinni þessa hreysti. Þó þarf ég alltaf að hafa áhyggjur af einhverju og því spyr ég: Er ástæða til að óttast díoxínmengun eða þungamálma af einhverju tagi í brjóstamjólkinni minni? Þriðja barnið er enn afskaplega brjóstasjúkt og ekki tilbúið að sleppa - telurðu það gott fyrir þriggja ára barn að vera enn á brjósti kvölds og morgna? Er ég að gera líkamanum mínum grikk með því að gefa svona lengi brjóst? Tek fram að ég er ekki vannærð. Ætli ég sé að ganga á tennur og bein eða eitthvað slíkt í sjálfri mér? Ég hef í öll þrjú skiptin gefið bæði brjóstin í um ár en að ári loknu hættir vinstra að mjólka en hægra hefur verið "virkt" í öll þessi átta ár. Er það nokkuð til að hafa áhyggjur af? Geturðu gefið mér góð ráð um hvernig best sé að láta svona stórt barn venja sig af brjósti?

Bestu kveðjur, Brjóstamútta.

 


Sæl og blessuð Brjóstamútta.

Til hamingju með langar brjóstagjafir. Þú segist vera sannfærð um kosti brjóstagjafar og mátt vera það. Hún gefur börnunum meiri hreysti og þér líka. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af þínum líkama ef þú passar að fá öll efni. Þá ertu að byggja upp betri bein og átt minna á hættu að fá beinþynningu seinna meir. Mengun í brjóstamjólk er hins vegar lítið rannsakað fyrirbæri og erfitt að segja til um. Það er þó líklegt að mesta hættan á að slík efni komist til barnsins sé í hröðum megrunarkúrum og þess vegna er verið að vara við þeim í brjóstagjöf. Já, ég tel það afskaplega gott fyrir 3ja ára barn að fá brjóst kvölds og morgna og þú þarft ekki að hafa áhyggjur þótt þú gefir aðeins annað brjóstið. Varðandi að venja barnið af brjósti þá er alltaf talið best að þau hætti sjálf en annars treysti ég alltaf mæðrum til að finna bestu aðferðina til að breyta því sem þær vilja.

Með góðum kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. mars 2012.