Á brjósti með skemmda tönn

29.08.2010

Sæl kæra ljósmóðir!

Ég á 14 mánaða gamlan son sem er enn á brjósti. Hann er komin með tannskemmd aftan við framtennurnar og þær eru byrjaðar að eyðast. Hann hefur alltaf drukkið mjög mikið á næturnar og mér er sagt af barnatannlækni að ég þurfi að hætta því strax. Hann var nánast eingöngu á brjósti til 12 mánaða. Annars orðinn duglegur að borða. Ég passa vel upp á mataræðið hjá honum. Hann hefur nokkru sinnum smakkað ís, drekkur ekki djús bara vatn aukalega. Eru til dæmi um að brjóstmjólk sé að hafa slæm áhrif á tennur? Þá aðallega næturgjafir?Ég hafði hugsað mér að hafa hann lengur á brjósti en hætti því auðvitað ef þetta er að skaða tennurnar hjá honum. Gæti ég gefið honum áfram eingöngu á daginn?Önnur spurning: Ég er nýlega orðin þunguð aftur (8 vikur) og mjólkin hefur minnkað hjá mér. Hafa verið einhver tengsl þar á milli? Getur brjóstagjöfin tekið einhverja næringu frá fóstrinu?

Kæra þakkir kæru ljósmæður.Kv.Móðir.


 

Sæl og blessuð Móðir!

Til hamingju með nýju þungunina. Tannskemmdir koma fyrir hjá ungbörnum á hvaða fæði sem þau eru,þótt auðvitað sé sumt verra en annað. Brjóstamjólk er ekki talin slæm. Sumir tala um að næturgjafir séu slæmar þegar sætur vökvi liggur mikið í munninum en aftur þá er brjóstamjólk ekki verri en hvað annað. Það væri ráð fyrir þig að venja barnið af næturgjöfum og bjóða bara vatn á næturnar en daggjöfunum geturðu að sjálfsögðu haldið áfram.

Varðandi nýju þungunina þá eru já, tengsl við tímabundna minnkun mjólkur. Það er þó engin hætta á að brjóstagjöfin taki næringu frá nýja fóstrinu.
Með von um gott gengi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. ágúst 2010.