Spurt og svarað

29. ágúst 2010

Á brjósti með skemmda tönn

Sæl kæra ljósmóðir!

Ég á 14 mánaða gamlan son sem er enn á brjósti. Hann er komin með tannskemmd aftan við framtennurnar og þær eru byrjaðar að eyðast. Hann hefur alltaf drukkið mjög mikið á næturnar og mér er sagt af barnatannlækni að ég þurfi að hætta því strax. Hann var nánast eingöngu á brjósti til 12 mánaða. Annars orðinn duglegur að borða. Ég passa vel upp á mataræðið hjá honum. Hann hefur nokkru sinnum smakkað ís, drekkur ekki djús bara vatn aukalega. Eru til dæmi um að brjóstmjólk sé að hafa slæm áhrif á tennur? Þá aðallega næturgjafir?Ég hafði hugsað mér að hafa hann lengur á brjósti en hætti því auðvitað ef þetta er að skaða tennurnar hjá honum. Gæti ég gefið honum áfram eingöngu á daginn?Önnur spurning: Ég er nýlega orðin þunguð aftur (8 vikur) og mjólkin hefur minnkað hjá mér. Hafa verið einhver tengsl þar á milli? Getur brjóstagjöfin tekið einhverja næringu frá fóstrinu?

Kæra þakkir kæru ljósmæður.Kv.Móðir.


 

Sæl og blessuð Móðir!

Til hamingju með nýju þungunina. Tannskemmdir koma fyrir hjá ungbörnum á hvaða fæði sem þau eru,þótt auðvitað sé sumt verra en annað. Brjóstamjólk er ekki talin slæm. Sumir tala um að næturgjafir séu slæmar þegar sætur vökvi liggur mikið í munninum en aftur þá er brjóstamjólk ekki verri en hvað annað. Það væri ráð fyrir þig að venja barnið af næturgjöfum og bjóða bara vatn á næturnar en daggjöfunum geturðu að sjálfsögðu haldið áfram.

Varðandi nýju þungunina þá eru já, tengsl við tímabundna minnkun mjólkur. Það er þó engin hætta á að brjóstagjöfin taki næringu frá nýja fóstrinu.
Með von um gott gengi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. ágúst 2010. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.