Á iði

18.04.2010

Mig langaði að fá ráðleggingar um brjóstagjöf dóttur minnar sem er 7 vikna gömul. Hún er svo mikið á iði á brjóstinu. Ekki alltaf en mjög oft. Á næturnar er hún oftast róleg að drekka (drekkur reyndar bara 1x á nóttu) en á daginn er hún róleg fyrst meðan flæðið er mest en strax eftir 2-3 mín. fer hún öll að iða til og frá snúa höfðinu, sparka fótum o.s.frv. Hún tekur út úr sér geirvörtunum og fer aftur á margoft. Svona er þetta búið að vera í einhverjar vikur núna. Þetta endar á því að ég tek hana af eftir 8-10 mín. og hún er alveg sátt við það. Hún virðist fá nóg því hún þarf ekkert að drekka næstu 2 tímana og hún þyngist ágætlega. Mér tekst sjaldan að láta hana ropa svo það er mikill vindgangur í henni. Á kvöldin grætur hún mikið í um 2 tíma sem læknar segja að sé bara dæmigerð kveisa. Á daginn er hún svolítið óróleg líka en bara kvartanir og sefur stutt í einu. Af hverju getur þetta ið á brjóstinu stafað og gæti það tengst óværðinni?

Með fyrirfram þökk. Auður.

 


Sæl og blessuð Auður!

Það gæti verið að barnið vantaði meiri stuðning í gjöfinni. Það er mjög misjafnt hve lengi þau þurfa góðan stuðning í gjöf. Sum nokkra daga og önnur upp í margar vikur eða jafnvel mánuði. Þar eru mörg atriði sem þar skipta máli. Þannig að ég legg til að þú prófir að setja hana í öfuga kjöltustöðu með góðan höfuðstuðning. Þú þarft líka að passa að hún lyfti hökunni vel upp og vanda vel gripið. Mörgum tekst betur að láta börn ropa ef þau eru tekin af brjósti snemma í gjöf(eftir 1-2 mín.) og á kvöldin er oft gott að nota skiptigjöf til að gefa þeim meira. Lengd gjafa þarf ekkert að vera lengri en 5-10 mín. Þegar börn eru orðin þetta gömul því þau eru tæknilega orðin miklu færari í sogi.

Vona að þetta hjálpi eitthvað.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. Apríl 2010.