Spurt og svarað

27. júlí 2005

Á leið í nám, með barn á brjósti

Sæl og takk kærlega fyrir frábæran vef!

Ég er að fara í skóla í haust og strákurinn minn verður ekki nema 4 mánaða þegar skólinn byrjar. Ég er enn eingöngu með hann á brjósti en finnst mjólkin vera að minnka hjá mér. Ég get ekki mjólkað dropa úr mér lengur en hér fyrst gat ég mjólkað heilu lítrana úr mér í einu. Mig langar alls ekki til að hætta brjóstagjöfinni þrátt fyrir að ég fari í skólann. Er í lagi að fara að gefa honum einn þurrmjólkurpela á dag, í hádeginu meðan ég er í skólanum? Skólinn er frá 9-16 en ég er í fáum áföngum svo ég kemst heim stundum í hádeginu og alltaf einhvern tímann fyrir hádegi og svo eftir hádegi og get þá gefið honum brjóst.

Eins langar mig að spyrja hvernig ég get aukið mjólkina hjá mér. Ég er að taka Fenugrec töflurnar og drekka teið frá Weleda, eins drekk ég vel af vatni og borða líka vel. Hafa reykingar ekki áhrif á minnkunina, þrátt fyrir að þær séu ekki miklar og ekki á hverjum degi

Kveðja, námsmamman.

...............................................................................


Sæl og blessuð námsmamma.

Þetta er svolítil spurning um skipulagningu. Hvernig viltu hafa þetta? Það er þrennt sem kemur til greina. Í fyrsta lagi geturðu beðið einhvern að gefa barninu 1 pela af þurrmjólk á meðan þú ert í skólanum. Í öðru lagi geturðu mjólkað þig og átt 1 pela handa honum á meðan þú ert í skólanum og í þriðja lagi geturðu stílað upp á að skjótast heim x 1 á dag til að gefa brjóst.

Fyrsta tillagan er sú alversta. Barnið er of ungt fyrir þurrmjólk, þú kallar yfir þig magaverki og óværð.

Næsta tillaga er kannski best. Þú þarft þó að þjálfa aftur upp hæfileikann til að mjólka brjóstin. Nú er losun mjólkur komin undir stjórn barnsins og þú þarft að nota öll þín trix til að geta mjólkað eitthvað af viti. Vertu dugleg að reyna og athugaðu að til að byrja með þarftu sennilega að mjólka þig 2-3 sinnum til að eiga í eina gjöf.

Síðasta tillaga en einföldust og þægilegust ef hún getur gengið upp. Þú þarft þó líka að mjólka þig og eiga til vara ef barnið biður um meira.

Það er líka hugsanlegur möguleiki að blanda þessum tillögum einhvernvegin saman eftir þínum smekk. Það er frekar ólíklegt að mjólkurframleiðslan hafi eitthvað minnkað hjá þér. Ef að barnið er að biðja reglulega um og drekka þokkalega þá er allt í lagi. En þú verður að sætta þig við að þú hefur ekki sömu áhrif á hana og áður. Þú spyrð hvernig þú eigir að auka mjólkina hjá þér. Þú þarft ekki að auka mjólkina hjá þér nema barnið þarfnist meira. Þú athugar að mjólkurrúmmál eyst ekki svo mikið á þessum tíma en samsetning mjólkurinnar breytist hins vegar í takt við þarfir barnsins svo reyndu að hafa ekki áhyggjur heldur njóttu brjóstagjafarinnar.

Gangi þér vel að velja úr tillögunum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. júlí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.