Spurt og svarað

25. júní 2006

Ábót eða ekki?

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Mig langar að spyrja ykkur í sambandi við ábót við brjóstamjólk. Daman mín er tæplega þriggja mánaða og hefur bara verið á brjóstamjólk frá fæðingu, en nú vill hjúkkan í ungbarnaeftirlitinu og reyndar ráðfærði hún sig við lækni líka, að ég fari að gefa henni þurrmjólk því litlan mín þyngist svo illa. Hún hefur þyngst um 1.100 gr frá því að hún fæddist, en hún virðist samt dafna vel lengist vel, höfuðmálið er fínt og hún er alls ekkert horuð eða neitt, alveg með smá læri og úlnliðsband og svoleiðis. Mér finnst mjólkin mín ekkert hafa minnkað og hef oft prófa að kreista fram eftir að hún hættir að drekka og það kemur mjólk svo hún hættir ekki út af mjólkurleysi. Hún er yfirleitt að drekka á tveggja tíma fresti og er ekki lengi að. Hún hreyfir sig rosalega mikið liggur aldrei kyrr er alltaf á milljón með fæturna svo það er spurning hvort hún sé að brenna öllu sem hún fær. Hún pissar vel því allar bleyjurnar eru vel blautar svo ég myndi halda að hún væri að fá nóg. En alla vega þá er ég búin að vera reyna prófa bjóða henni pela eftir gjöf en hún vill það engan veginn bara kúgast og öskrar er engin vegin sátt, svo ég veit eiginlega ekki alla vega hvað ég á að gera, vil auðvitað ekki svelta barnið. Vona að þið getið gefið mér einhver ráð um þetta.

Með bestu kveðju, Þyrnirós.


Sæl og blessuð Þyrnirós.

Það er erfitt að sjá á þessu bréfi hvort barnið þarf á ábót að halda. Samkvæmt útreikningum vantar bara 90 gr. upp á eðlilega þyngd og því er hægt að ná á 3-4 dögum. Nú er hún líka kominn akkúrat á þann aldur sem þyngdaraukning fer að hægjast hjá brjóstabörnum. Og ef hún þroskast eðlilega, pissar vel og er ánægð þá er erfitt að sjá vandamál. Ég held að þú ættir að spyrja hjúkrunarfræðinginn betur út í af hverju þörf er á ábót. Það getur verið einhver ástæða fyrir því sem hefur farið fram hjá þér.Yfirleitt ef börn þyngjast ekki nægilega af móðurmjólkinni er byrjað á því að auka hana áður en farið er að gefa ábót. Þú nefnir ekki að það hafi verið gert. Þá er byrjað á því að gefa auka brjóstagjafir. Kannski 1 fyrripart dags og 1 seinnipartinn. Ef þú nærð góðum gjafafjölda í 3-4 daga (12-14 gjöfum) gætirðu náð góðri innspýtingu í framleiðsluna. Þá er líka mikilvægt að reyna að dekstra hana til að vera eins lengi á brjóstinu og hægt er og endilega að láta hana taka bæði brjóstin í gjöf. Nú, ef þú ert búin að gera þetta og barnið þarf óyggjandi á ábót að halda þá er best að byrja hægt. Gefa kannski bara 1-2 tsk. eftir brjóstagjöfina með teskeið eða úr dropateljara. Ef vel tekst til í nokkur skipti þá getur magnið aukist mjög hratt.

Með von um að þetta svar hjálpi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. júní 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.