Spurt og svarað

01. mars 2007

Ábót og erfiðleikar með brjóstagjöf

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Þannig er mál með vexti að ég á 6 vikna gamlan son og hefur hann nánast verið á brjóstinu allan þennan tíma á daginn en hefur þó sofið vel á nóttinni. Í síðustu viku var hann vigtaður og var hann ekki búinn að þyngjast neitt frá vikunni á undan svo að mér var gefinn tími í 6 vikna skoðun tveimur dögum seinna þótt hann væri aðeins 5 vikna og 3 daga gamall. Á þessum tveimur dögum hafði hann heldur ekki þyngst. Barnalæknirinn sagði að hann væri líklega ekki að fá nóg hjá mér og sagði mér að gefa honum ábót þ.e. 30 ml. í hvert skipti eftir hverja gjöf. Mér fannst þetta mjög leiðinlegt þ.e. að ég væri ekki að mjólka nóg. En nú finnst mér ég vera komin í enn verri mál, því að drengurinn dugar ekki á brjóstinu nema í 5- 10 mín. en þá grætur hann bara þangað til að ég gef honum ábótina og svo grætur hann enn meira og tekur ekki brjóstið eftir það. Þannig að nú held ég að hann sé ekki að fá alla brjóstamjólkina sem í boði er. Mér líður eins og nú sé búið að eyðileggja alla brjóstagjöfina og þessar 6 vikur sem hann var að örva mjólkurframleiðsluna sé farin um þúfur.

En nú spyr ég, er eitthvað aftur snúið þegar svona er komið? Ætti ég að minnka ábótina eitthvað og hvort er betra að gefa honum hana úr sprautu, staupi eða pela?

Ein ráðþrota og vonsvikin.Sæl og blessuð!

Ef að einu sinni er búið að setja mjólkurframleiðslu vel af stað og barnið hefur þyngst nægilega á einhverjum tímapunkti fyrstu viknanna þá er alltaf hægt að ná framleiðslunni upp aftur þótt hún hafi náð að dala. Það er fyrst og fremst spurning um gjafamynstrið. Ef framleiðslan fer að dala er það versta sem maður getur gert að gefa barninu annað því þá dalar framleiðslan enn meira. Þú getur því alveg snúi þróuninni við en það kostar vinnu í nokkra daga. Þú þarft að fjölga brjóstagjöfunum verulega, væntanlega upp í 10-14 á dag. Lengdin skiptir minna máli en helst verða þær þó að ná 10 mín. í hvert skipti. Best er ef barnið fæst til að taka bæði brjóstin í gjöfinni. Fyrsta brjóstið í 7-10 mín. og svo skipta yfir á hitt. Ef barnið er viljugt má skipta aftur yfir á fyrsta brjóstið til að fá enn frekari örvun. Næturgjöf er æskileg á meðan þessi aukaörvun fer fram. Ábótina þarf a taka út en það er ekki hægt að gera allt í einu. Fyrstu 1-2 dagana geturðu gefið ábót x 1-2 og þá bara lítið (20-30 ml). Það er betra að gefa hana úr sprautu eða staupi. Þetta getur verið erfitt í 1-2 daga þegar barnið er óvært og kallar stöðugt á mat en þú átt að gefa oft þannig að það passar vel saman.

Yfirleitt á 3-4 degi finna konur að ástandið fer að breytast til batnaðar og eftir það er engin ábót og lífið einfaldast. Smátt og smátt fækkarðu svo aftur gjöfunum og breytir mynstrinu við hæfi barnsins. Þú þarft að reyna að passa upp á sjálfa þig á þessum tíma. Borða reglulega, drekka samkvæmt þorsta og taka smáhvíldir þegar færi gefast. Ef svona örvunarhrota ekki skilar árangri eru alltaf til aðrar leiðir til hjálpar. Fáðu þá hjálp hjá fagfólki með góða vitneskju um brjóstagjöf.

Baráttukveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. mars 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.