Acidophilus fyrir ungbörn

20.10.2010
Ég á þriggja og hálfs mánaða gamla dóttur sem þurfti að fara á fúkkalyf. Mér var bent á að kaupa acidophilus fyrir ungabörn og setja svolítið á geirvörturnar á mér fyrir gjöf til þess að hjálpa maganum hennar. Ég keypti duftið en nú þori ég ekki að nota það fyrr en ég hef fengið ráð hjá fagfólki. Á dósinni stendur að þetta sé Unflavored Non-Dairy Bifidobacterium Infants Powder. Þetta er frá Solaray, keypt í Manni lifandi. Má ég gefa henni þetta?
 
Sæl og blessuð!
Ég þekki ekki nákvæmlega þetta efni en það eru reyndar til mörg önnur í þessum flokki. Það er hins vegar einföld og góð regla varðandi ungabörn. Hún er sú að gefa þeim helst ekkert annað en brjóstamjólk. Þó er undanþága varðandi vítamín, steinefni og lyf ef nauðsyn krefur en í raun ekkert annað. Það eru stundum efni í svona duftum sem geta vakið ofnæmi. Mitt ráð er að bíða þar til hún er orðin 6 mán.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. október 2010.