Acidophilus gerlar og brjóstagjöf

15.09.2007

Góðan dag!

Ég er með 4 mánaða gamla stúlku á brjósti og var að byrja að taka Amoxicillin vegna sýkingar.  Ég er að spá í að taka Acidophilus gerla upp á meltinguna en fór þá að spá í hvort þeir bærust í brjóstamjólk og hvort það væri þá jákvætt eða neikvætt fyrir barnið?  Nú veit ég að sýklalyfin berast í mjólkina og geta haft áhrif á  meltingu barnsins líka.

Bestu kveðjur, brjóstamamma.


Sæl og blessuð brjóstamamma.

Það er allt í lagi að taka inn Acidophilus með sýklalyfjunum og gæti hjálpað þér í maganum. Það er líka fínt að taka inn LGG. Þetta berst mjög lítið til barnsins og hefur lítil áhrif. Það er líka svo að sýklalyf berast í afar litlu magni til barnsins og hafa ekki áhrif á maga þeirra nema um sérlega viðkvæm börn sé að ræða. Þetta er nokkuð sem mikils misskilnings gætir um í þjóðfélaginu. Það getur hins vegar haft nokkur áhrif á börn þegar mamma þeirra veikist og allt það rask sem því fylgir. Það gerir það að verkum að mörg börn verða óværri og pirraðri en venjulega. Þetta kannast margar mæður við. Því er mikilvægt að reyna að láta veikindin hafa sem minnst truflandi áhrif á brjóstagjöfina.             

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. september 2007.