Spurt og svarað

16. janúar 2013

Ææðahnútaaðgerð

Ég er að fara í æðahnútaaðgerð sem töluvert mikil aðgerð, það á að reyna að nota deyfingu í stað svæfingar. Ég er með 3ja mánaða barna á brjósti og hef smá áhyggjur af brjóstagjöfinni. Verður óhætt að gefa honum eftir aðgerð. Nú hefur barnið verið mjög óvært og alltaf einhver magavandamál, því hef ég áhyggjur að hann umturnist alveg við deyfilyfin. Er ástæða til að hafa áhyggjur? Einnig langar mig að spyrja um slím í nefi. Barnið er alltaf með hor og á erfitt með að anda fyrst á morgnanna sérstaklega þegar ég er að gefa honum, búin að vera svona alla tíð. Ég hef nefnt þetta í hverri ungbarnaeftirlitsferð, en aldrei verið hlutstað neitt á mig, enda heyrist minna í honum er líður á daginn. Ungbarnaeftirlitsferðirnar líka einkennst af miklum öskrum.
Kærar þakkir fyrir veitt svör og góðan vef.Sæl
Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af svæfingunni eða deyfilyfjunum, stutt svæfing hefur ekki áhrif á brjóstamjólkina og óhætt er að gefa brjóst strax eftir að móðirin vaknar.
Eftir því sem ég kemst næst eru æðahnútaaðgerðir flestar gerðar á innan við 60 mínútum. Ef búist er við að aðgerðin taki langan tíma gætir þú mjólkað þig í nokkra daga fyrir aðgerðina og fryst þannig að þá getur sá sem sér um barnið fyrir þig á meðan þú ert í aðgerðinni og fyrstu tímana eftir aðgerðina gefið barninu þá mjólk upphitaða. Best væri ef þú getur gefið barninu rétt áður en þú ferð í aðgerðina og fáir svo að hafa barnið hjá þér fljótlega eftir aðgerðina.
Varðandi slím í nefi getur þú gefið barninu saltvatnsdropa í nefið fyrir gjöf, ef það dugar ekki má nota Nezeril, einnig má nota nefsugu til að reyna að losa um slímið. Nezeril er fáanlegt í nokkrum styrkleikum, fyrir þriggja mánaða barn ætti að nota daufasta skammtinn sem er 0,1mg/ml.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
16. janúar 2013.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.