Æla hjá ungbarni

16.11.2008

Sælar og takk fyrir að halda úti þessum frábæra vef, upplýsingarnar hafa margoft komið að góðum notum með krílin mín.

Ég á eina 9 mánaða stúlku sem er að mestu enn á brjósti, hún þyngist eðlilega og er smám saman að vilja borða (þó svo megnið fari í frussi aftur út úr henni). Hún virðist þó gubba töluvert og langar mig að vita hversu lengi það geti talist eðlilegt að ungabörn æli. Hún ælir ekkert endilega bara eftir matartíma, heldur virðist koma uppúr henni allan daginn og nýlega er farin að koma ælulykt af gubbinu en ekki mjólkurlykt. Getur verið að hún sé með einhverskonar óþol gegn mat?

Önnur spurning hjá mér er að ég ætla bráðlega að draga úr næturgjöfum hjá henni. Hún sofnar um 7.30 á kvöldin og sefur til um 7 á morgnana. Hún vill drekka á þriggja tíma fresti og fer alltaf beint að sofa aftur. Ég er að velta fyrir mér hvaða gjafir ég á að taka út, eða á ég að taka allar gjafirnar út?

Með von um einhver svör.

Kveðja, mamma.


Sælar!

Með ælurnar hjá stúlkunni þinni, þá ráðlegg ég þér að tala við þinn heimilislækni vegna þess að hún er orðin þetta gömul og byrjuð að borða mat. Oft hætta ungbarna ælur þegar börnin byrja að borða.
Með næturgjafir þá byrja flestar mæður á því að taka út eina gjöf í einu á nóttinni og láta líða marga daga á milli áður en næsta gjöf er tekin út. Feðurnir eru þá oft að sinn barninu í staðinn fyrir móðurina t.d. með því að breiða sængina yfir barnið, gefa snuð ef barnið notar snuð eða gefa barninu vatnssopa. Börnin hætta oftast að vakna fyrir þetta ef þau fá ekki brjóst á nóttunni. Sem sagt hætta bara eina gjöf í einu og láta líða talsverðan tíma á milli þangað til næsta gjöf er tekin út. 

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. nóvember 2008.