Spurt og svarað

20. nóvember 2006

Æðasamdráttur

Sælar.

Ég á 7 vikna dóttur  og hef átt í miklu brasi með vörturnar. Fékk sár, síðan sveppasýkingu og stíflu og er búin að berjast í þessu í 7 vikur. Ég er ekki enn orðin góð á öðru brjóstinu þó að það sé búið að meðhöndla þessa þætti. Ég er mjög aum í vörtunni og hún er hvít í miðjunni þegar hún er búin að drekka og verður síðan fjólublá á þeim hluta þar sem hún hvítnar. Mér fannst þetta líkjast lýsingu einnar konu sem sendi fyrirspurn til ykkar, sem átti við svipuð vandamál að stríða. Þið töluðuð um að hún væri líklega með æðasamdrátt í vörtunni sem væri auðvelt að meðhöndla með lyfjagjöf. Ég talaði við minn brjóstaráðgjafa og hann hafði ekki vitneskju um þetta lyf. Hún bað mig um að senda fyrirspurn um hvaða lyf þetta væri? Ég er búin að pína mig í þessar vikur og er alveg búin að fá nóg, ég verð að fá einhverja bót á þessu ef ég á að þrauka næstu 4 mánuði með hana á brjósti.

Með von um skjót svör, Prinsessumamma.


Sæl og blessuð prinsessumamma.

Ég hef einhvern tíma áður svarað fyrirspurn um þetta efni en það er orðið ansi langt síðan. Lýsingin er eins og hjá þér. Hún einkennist af verkjum í vörtu, annaðhvort í gjöfinni eða ekki síður eftir gjöfina. Svo sjást þessi litbrigði oftast hvít en stundum líka fjólublá eftir að gjöf lýkur. Fyrsta meðferð er alltaf hiti. Það eru notaðir litlir snarpheitir (eins og maður þolir) bakstrar sem bara eru lagðir á vörtuna. Sumar konur nota þá fyrir gjöf, aðrar eftir gjöf og enn aðrar bæði fyrir og eftir. Þessu fylgir að passa að kuldi komist ekki að vörtunum. Sumum konum er þetta næg meðferð aðrar taka t.d Íbúfen (400mg.) fast x 3-4 á dag. Ég ráðlegg öllum konum með æðasamdrátt að taka lýsi og/eða kvöldvorrósarolíu í stórum skömmtum. Svo hefur sýnt sig að skila árangri að taka kalk og magnesíum í stórum skömmtum og oft er bætt við B-6 vítamíni í litlum skömmtum (25 mg. á dag). Allri þessari bætiefnameðferð fylgir sá ókostur að hún er 2-3 vikur að sýna árangur. Lyfjagjöf við æðasamdrætti í vörtum miðast við að víkka æðar. Lyf sem hér hefur verið notað er blóðþrýstingslækkandi með lyfjaheitið Nifedipine. Það er notað í óvenju litlum skömmtum eða 5 mg. x 3 á dag en virkar oft mjög vel. Það er notað tímabundið í  2 vikur í senn en meðferð endurtekin ef á þarf að halda.

Ég verð að segja að mér finnst ótrúlegt að brjóstagjafaráðgjafi sé til sem ekki þekkir þessa meðferð. Ertu viss um að hún hafi skilið þig rétt? Ertu viss um að hún sé brjóstagjafaráðgjafi?  Vona að þú fáir lausn á þínum málum.       

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. nóvember 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.