Spurt og svarað

16. maí 2010

Af hverju brjóstagjöf til 2½ árs?

Sælar ljósmæður!

Mig langar að vita af hverju alþjóðaheilbrigðisstofnun mælir með brjóstamjólk til 2 1/2 árs? Ég hef margsinnis lent í umræðum um brjóstagjöf og gildi brjóstamjólkur og það er ljóst að fólk hefur mjög misjafnar hugmyndir um hana. Ég hef ákveðið að hafa son minn sem er 10 mánaða eins lengi og hann sækist eftir því. Einhver tilfinning segir mér að það sé best fyrir okkur. En þar sem margir eru forvitnir um þetta, langar mig að gefa betri svör við þessari ákvörðun og er að vona að þið getið gefið mér flott svar!

Með fyrirfram þökk, móðir.


Sæl og blessuð móðir!

Það er virðingarvert að þú skulir standa fast við þína skoðun og reyna að útskýra hana fyrir öðrum. Þessi tilfinning er alveg rétt hjá þér og ég tel að hún sé innbyggð í móðureðlið. Það er bara synd hve margar mæður telja sig ekki geta fylgt henni eftir. Alþjóðaheilbrigðisstofnun (WHO) mælir með brjóstagjöf eingöngu í 6 mánuði eftir fæðingu og áfram með annarri fæði í 2 ár eða lengur. Þetta er gert af heilbrigðisástæðum því sífellt fleiri rannsóknir sýna að það stuðlar að bestu heilbrigði barna og reyndar kvenna líka. Í mjólkinni eru efni sem ekki er hægt að framleiða á annan hátt og þau virðast gefa börnum vernd fyrir ýmsum sjúkdómum. Það léttir á heilbrigðiskerfinu á margan hátt og styrkir í raun þjóðfélagið allt. Ég veit ekki hvort þetta er nokkuð flott svar en vona að það hjálpi.

Með bestu kveðju,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. maí 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.